Krummi krunkar í beinni útsendingu

13.04.2017 - 15:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ipcamlive
Fólki gefst óvenjulegt tækifæri til að fylgjast með hrafni sem liggur á laupi sínum í beinni útsendingu á netinu. Í laupinum hvíla svo fjögur egg sem hrafninn er duglegur að halda hita á. Laupurinn er undir þakskeggi Byko á Selfossi og áttu verslunarstjóri og aðstoðarverslunarstjóri verslunarinnar hugmyndina að beinu útsendingunni.

Hrafninn er á kunnulegum slóðum en þetta er fjórða árið í röð sem hann gerir sér hreiður við verslunina. „Hann gargar alltaf á okkur starfsmenn þegar við förum í og úr vinnu, þannig hann fylgist vel með okkur. Hann heilsaði mér einmitt í morgun þegar ég opnaði verslunina. Þetta er voða vinalegt og skemmtilegt að hafa hann hérna,“ segir Torfi Sverrisson vaktstjóri en beinu útsendinguna má nálgast hér.

SlowTV slær í gegn

Svokallað SlowTV, eða hægvarp eins og það er kallað á íslensku, á uppruna sinn að rekja til norska ríkissjónvarpsins NRK sem hefur sent beint út klukkustundum saman frá sömu athöfninni, t.d ferjuferð eða fuglabjargi. Hægvarp hefur nú slegið í gegn hjá Íslendingum en hljómsveitin Sigur Rós tókst á við þjóðveg eitt í 24 klukkustunda langri beinni útsendingu á RÚV.

Beint frá burði var einnig bein útsending sem landsmenn muna flestir eftir þegar RÚV gaf öllum landsmönnum kost á að fylgjast með sauðburði í beinni útsendingu í heilan sólarhring frá fjárhúsunum á Syðri-Hofdölum í Skagafirði. Þá hefur Nútíminn einnig boðið upp á beina útsendingu af Kattarshians sem hefur slegið í gegn um allan heim. 

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi