Benedikt hefur lýst áhyggjum af ofrisi krónunnar og talið þörf á að tengja hana við erlendan gjaldmiðil. Hann segist verða var við ótta atvinnurekenda við hátt gengi krónunnar, síðast á fundi á Siglufirði á laugardag. „Þar var margt fólk sem er í útgerð eða öðrum útflutningi. Fólk er nánast skelfingu lostið yfir því hvað krónan er orðin sterk núna á þessum undanförnum mánuðum, hvað þá ef við horfum á undanfarin tvö ár.“
„Þetta hefur gerst ennþá hraðar en maður óttaðist," segir Benedikt um styrkinguna síðustu mánuði. Hann segir að sterk króna hafi óneitanlega þann kost að innfluttur varningur verði ódýrari og hægt sé að fara í utanlandsferðir fyrir minni pening en áður. „Á sama tíma er þetta að grafa undan fyrirtækjunum og þá er þetta að verða ógn við atvinnu fjölmargra einstaklinga. Ísland er ekki jafn samkeppnishæft og það ætti að vera og þá erum við komin á hættulegar slóðir.“