Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kristján Viðar stefnir ríkinu og krefst 1,4 milljarða

10.02.2020 - 14:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kristján Viðar Júlíusson, einn fimmmenninganna sem sýknaðir voru í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu í Hæstarétti haustið 2018, hefur stefnt íslenska ríkinu og krafist rúmlega 1,4 milljarða króna í bætur. Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudaginn.

Kristján Viðar telur sig meðal annars eiga rétt á bótum vegna þess að hann var sekur maður að ósekju í tæp 40 ár, auk þess að hafa setið inni í sjö og hálft ár. Í stefnunni kemur einnig fram að ríkið hafi bakað sér bótaskyldu með blaðamannafundi sem haldinn var árið 1977.

Guðjón Skarphéðinsson hafði áður stefnt ríkinu, og krafist eins komma þriggja milljarða króna í bætur, en nú eru stefnurnar gegn íslenska ríkinu vegna málsins sem sagt orðnar tvær.

Kristján Viðar var á sínum tíma dæmdur í 16 ára fangelsi og var samtals sviptur frelsinu í sjö ár, fimm mánuði og tvo daga. Aðeins Sævar Ciesielski sat lengur inni.

Vill mismuninn

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Kristjáns Viðars, sendi ríkislögmanni kröfubréf síðastliðið haust, þar sem þess var krafist að ríkið greiddi honum 1.654.854.720 krónur vegna óréttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir í tengslum við málið.

Í lok janúar greiddi ríkissjóður fimmmenningunum samanlagt 774 milljónir króna í miskabætur. Greitt var samkvæmt lögum sem samþykkt voru í desember og kveða á um að greiða bætur til þeirra sem sýknaðir voru, og eru á lífi, og til eftirlifandi maka og barna þeirra sem látnir eru. 

Kristján Viðar fékk 204 milljónir. Hann hefur nú stefnt íslenska ríkinu og krefst þess að fá greiddan mismuninn á þeirri upphæð sem hann krafðist upphaflega, og þeirrar upphæðar sem hann hefur nú fengið. Upphæðin nemur því 1.450.854.720 krónum, auk dráttarvaxta.