
Kristján Þór hefur sagt sig frá málum Samherja
Kristján Þór hefur lýst sig vanhæfan í málum sem tengjast Samherja vegna umsóknar félagsins um bráðabirgða rekstrarleyfi til starfrækslu fiskeldisstöðvar á Núpsmýri í Öxarfirði í Norðurþingi. Matvælastofnun synjaði rekstrarleyfinu og hefur Samherji lagt fram stjórnsýslukæru vegna þess. Þá hefur Fiskistofa veitt Samherja skriflega áminningu á grundvelli laga um umgengni um nytjastofna sjávar.
Þá sagði Kristján Þór sig frá máli Útgerðarfélags Akureyringa vegna stjórnsýslukæru félagsins vegna ákvörðunar Fiskistofu um sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni í tiltekin tíma á grundvelli laga um umgengni um nytjastofna sjávar, samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra lagði fram tillögu til Forseta Íslands á ríkisstjórnarfundi í morgun um að Sigurður Ingi tæki við þessum málum og að Kristján Þór viki sæti.