Kristján Árnason látinn

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Páll Valdimarsson - Aðsend mynd

Kristján Árnason látinn

31.07.2018 - 07:00

Höfundar

Kristján Árnason, bókmenntafræðingur, rithöfundur og fyrrverandi háskólakennari, er látinn 83 ára að aldri. Kristján var mikilvirkur þýðandi og hlaut íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á bókinni Ummyndanir Ovids sem kom út árið 2009. Hann var líka tilnefndur til Hinna íslensku bókmenntaverðlauna árið 1990 fyrir ljóðabókina Einn dag enn.

Kristján sendi frá sér fjölda bóka, bæði eigin frumsömdu verk og þýðingar á skáldsögum, leikritum, ljóðum og fræðiritum. Hann þýddi verk úr ýmsum málum og frá ýmsum tímum. Kristján kenndi við Háskóla Íslands frá árinu 1973. Hann kenndi líka við Menntaskólann á Akureyri, Kennaraskóla Íslands og menntaskólann að Laugarvatni. Eftir Kristján liggja einnig margar fræðigreinar og ritgerðir auk erinda sem hann flutti um bókmenntir og heimspeki.

Kristján fæddist í Reykjavík 26. september 1934, sonur Árna Kristjánssonar píanóleikara og Önnu Steingrímsdóttur húsmóður. Hann kvæntist Kristínu Önnu Þórarinsdóttur og áttu þau þrjú börn auk þess sem Kristín Anna átti tvö börn fyrir. Kristín Anna lést 1986. Síðari sambýliskona Kristján var Inga Huld Hákonardóttir, blaðamaður og rithöfundur. Hún lést 2014.