Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Kristallinn er sá að við erum öll mennsk“

Mynd:  / 

„Kristallinn er sá að við erum öll mennsk“

04.02.2019 - 10:50

Höfundar

Velkomin heim er nýtt íslenskt leikverk úr smiðju leikhópsins Trigger warning þar sem María Thelma Smáradóttir segir sögu sína og móður sinnar, sem flutti frá Tælandi til Íslands fyrir 26 árum. 

Í leiksýningunni Velkomin heim í Þjóðleikhúsinu, segir María Thelma Smáradóttir leikkona sögu móður sinnar, Völu Rúnar, sem fæddist á hrísgrjónaakri um miðja 20. öld. Hún þekkti aldrei föður sinn, missti móður sína sex ára og var meira og minna á eigin vegum eftir það.

„Við vorum inni í eldhúsi og hún fór að segja mér frá því hvernig hún fæddist, að amma mín – mamma hennar – hefði fætt hana út á miðjum hrísgrjónaakri,“ segir María Thelma. „Þá kom það strax til mín; hún fæddist ekki í hvítu mjúku rúmi upp á spítala. Hún fór að segja mér frá því og lýsti umhverfinu svo fallega fyrir mér. Mér þótti mjög vænt um þá sögu og þannig í rauninni sprettur sýningin fram.“

Mynd með færslu

Leikstjórn er í höndum Köru Hergils og Andreu Vilhjálmsdóttur. „Þegar hún kom til okkar fórum við að leita leiða til að stækka söguna. Þá fannst okkur ekki síður merkileg saga Maríu og hvernig er að alast upp með erlendu foreldri og vera annarrar kynslóðar innflytjandi á Islandi,“ segir Kara. Verkið var unnið með svokallaðri samsköpunaraðferð segir Andrea. „Leikarinn fer út á svið, segir sögur og spinnur og gerir alls konar atriði. Svo setjumst við niður og skrifum það. Þannig að við skrifum ekki handrit eins og tíðkast í leikritun heldur er það hin leiðin að því að finna verkið.“ 

Eftir að María Thelma hafði rætt við móður sína hóf hún að velta því fyrir sér hvað það er að eiga heima einhvers staðar. „Ég varð í kjölfarið ótrúlega forvitin um eigin uppruna og ég skammaðist mín fyrir að vita ekki meira um sjálfan mig og þennan heim.“ 

„Kristallinn er sá að við erum öll mennsk, við getum öll fundið einhvern samhljóm,“ segir María Thelma. „Mér fannst mikilvægt að gefa fólki rödd sem hefur ekki greiðan aðgang að því að varpa ljósi á sinn heim.

María Thelma segir það mikinn heiður að fá tækifæri til að segja sögu móður sinnar. „Ég held að það verði minn mesti heiður á öllum mínum ferli að segja þessa sögu, alveg sama hvað tekur við eftir þetta.“ 

Tengdar fréttir

Leiklist

Falleg, einlæg og rammpólitísk sýning

Kvikmyndir

Best að vinna við kvikmyndir á Íslandi

Kvikmyndir

Í kapphlaupi við móður náttúru