Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefst þess að skipstjóri Sea Watch fái frelsi

30.06.2019 - 05:52
epa07682745 A handout photo made available by Sea-Watch shows Sea Watch 3 captain Carola Rackete (C) being arrested after entering the port of Lampedusa and ramming a patrol boat, in Lampedusa, Italy, 29 June 2019. According to reports, the captain Carola Rackete was arrested after violating orders from the Finance Police and entering the port of Lampedusa while ramming a patrol boat.  EPA-EFE/SELENE MAGNOLIA/SEA-WATCH HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - SEA-WATCH
Utanríkisráðherra Lúxemborgar biður ítalskan starfsbróður sinn að beita sér fyrir frelsun skipstjórans á björgunarskipinu Sea Watch 3, sem handtekinn var á ítölsku eyjunni Lampedusa á föstudag. Skipstjórinn, hin þýska Carola Rackete, sigldi skipi sínu til hafnar á Lampedusa að kvöldi föstudags með 40 flóttamenn um borð, í trássi við bann ítalskra yfirvalda. Var hún handtekin um leið og skipið lagðist að bryggju og færð í land í lögreglufylgd.

Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, skrifaði í gær Enzo Moavero Milanese, utanríkisráðherra Ítalíu, opið bréf á Facebook. Þar segir hann Rackete hafa talið sig nauðbeygða til að koma flóttafólkinu til Lampedusa. „Björgun mannslífa er skylda og ætti aldrei að meðhöndla sem brot eða glæp,“ skrifar Asselborn. „Þvert á móti: Það, að bjarga fólki ekki, er glæpur.“  Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tók í sama streng í færslu á Twitter.

Ítölsk yfirvöld halda því fram að Rackete hafi reynt að sigla á hraðbát landamæralögreglunnar á leið sinni til hafnar, og Matteo Salvini, innanríkisráðherra, sakar hana um „stríðsaðgerð“. „Við reyndum að hefta för [björgunarskipsins] með því að sigla í veg fyrir það, en ef við hefðum ekki fært okkur hefði það eyðilagt hraðbátinn,“ sagði lögreglumaður í ítölskum fjölmiðlum í gær.

Haft er eftir lögreglu að Rackete hafi verið róleg og yfirveguð við fyrstu yfirheyrslur í landi og beðist afsökunar á glæfralegri framgöngu sinni gagnvart lögreglubátnum.

Rackete vísar í neyðarrétt fólks sem bjargað er úr sjávarháska og segir heilsufar flóttafólksins hafa verið orðið afar bágborið. Ekki hafi verið annað í stöðunni en að koma þeim í örugga höfn, hvað sem það kostaði. Verði hún ákærð og sakfelld á hún allt að 10 ára fangelsi yfir höfði sér.