
Krefst þess að skipstjóri Sea Watch fái frelsi
Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar, skrifaði í gær Enzo Moavero Milanese, utanríkisráðherra Ítalíu, opið bréf á Facebook. Þar segir hann Rackete hafa talið sig nauðbeygða til að koma flóttafólkinu til Lampedusa. „Björgun mannslífa er skylda og ætti aldrei að meðhöndla sem brot eða glæp,“ skrifar Asselborn. „Þvert á móti: Það, að bjarga fólki ekki, er glæpur.“ Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, tók í sama streng í færslu á Twitter.
Ítölsk yfirvöld halda því fram að Rackete hafi reynt að sigla á hraðbát landamæralögreglunnar á leið sinni til hafnar, og Matteo Salvini, innanríkisráðherra, sakar hana um „stríðsaðgerð“. „Við reyndum að hefta för [björgunarskipsins] með því að sigla í veg fyrir það, en ef við hefðum ekki fært okkur hefði það eyðilagt hraðbátinn,“ sagði lögreglumaður í ítölskum fjölmiðlum í gær.
Haft er eftir lögreglu að Rackete hafi verið róleg og yfirveguð við fyrstu yfirheyrslur í landi og beðist afsökunar á glæfralegri framgöngu sinni gagnvart lögreglubátnum.
Rackete vísar í neyðarrétt fólks sem bjargað er úr sjávarháska og segir heilsufar flóttafólksins hafa verið orðið afar bágborið. Ekki hafi verið annað í stöðunni en að koma þeim í örugga höfn, hvað sem það kostaði. Verði hún ákærð og sakfelld á hún allt að 10 ára fangelsi yfir höfði sér.