Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Krefst þess að dómari víki sæti úr Landsrétti

04.02.2018 - 17:54
Frá vinstri: Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, Ingveldur Einarsdóttir, Kristbjörg Stephensen, Ragnheiður Bragadóttir, Ragnheiður Harðardóttir, Arnfríður Einarsdóttir, Jóhannes Sigurðsson, Oddný Mjöll Arnardóttir, Jón Finnbjörnsson, Aðalsteinn E. Jónasson, Davíð
Dómarar við Landsrétt. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lengst til vinstri á myndinni. Mynd: Dómsmálaráðuneytið
Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson, lögmaður, lagði fram kröfu í Landsrétti á föstudag um að Arnfríður Einarsdóttir, dómari við dómstólinn, víki sæti úr dómsmáli sem henni hafði verið úhlutað vegna vanhæfis. Arnfríður var einn fjögurra dómara sem dómsmálaráðherra lagði til að yrði skipuð í stað þeirra fjögurra sem sérstök hæfnisnefnd mat hæfasta.

Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar, staðfestir í samtali við fréttastofu að krafan hafi verið lögð fram fyrir helgi og að tekin verði afstaða til málsmeðferðarinnar á morgun en fyrstu málin verða flutt fyrir Landsrétti á þriðjudag.

Dómarar við dómstólinn úrskurða sjálfir um eigið hæfi og það verða því þeir þrír dómarar sem eiga að dæma í umræddu máli sem fá það verkefni - Arnfríður, Jóhannes Sigurðsson og Þorgeir Ingi Njálsson. Jóhannes og Þorgeir voru báðir í þeim hópi sem hæfisnefndin mat hæfasta.

Vilhjálmur Hans staðfesti í samtali við fréttastofu að hann hefði lagt kröfuna fram en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu er krafan meðal annars rökstudd með vísan til nýlegs dóms Evrópudómstólsins  þar sem skipun dómara í starfsmannarétt dómstólsins var talin ólögmæt og hún gæti leitt til þess að ómdara hans yrði ómerktir. Þá er einnig vísað til nýlegs dóms EFTA-dómstólsins þar sem talið var að annmarki væri á skipun norsk dómara. 

Þá er í kröfunni einnig vísað til dóma Hæstaréttar í málum Ástráðs Haraldssonar og Jóhannesar Rúnars Jóhannessonar. Hæstiréttur dæmdi íslenska ríkið til að greiða hvorum um sig 700 þúsund krónur í miskabætur vegna ólöglegrar málsmeðferðar við skipan dómara í Landsrétt. 

Skúli Magnússon, fyrrverandi skrifstofustjóri EFTA-dómstólsins, vildi í fréttum RÚV í síðustu viku ekki segja til um hvort dómur Evrópudómstólsins hefði þýðingu fyrir Landsréttar-málið svokallaða. „Ja, ef þú ert að spyrja mig að því hvort að hugsanlegt ólögmæti við skipun landsréttardómara kunni að leiða til þess að Hæstiréttur muni ómerkja dóm Landsréttar, þar sem slíkir dómarar hafa tekið sæti, þá get ég ekki svarað þeirri spurningu sem íslenskur dómari, þeirri spurningu verður Hæstiréttur einfaldlega að svara.“

Fram kom í Silfrinu í hádeginu í dag að stjórnskipunar-og eftirlitsnefnd væri nú að velta því fyrir sér að draga sig í hlé til að hleypa umboðsmanni Alþingis að. „Umboðsmaður hefur sagt að hann ætli ekki að opna málið á meðan við erum í okkar vinnu,“ sagði Helga Vala Helgadóttir, formaður nefndarinnar. Það yrði því rætt á fundi nefndarinnar á morgun hvort ekki væri rétt að hún bakkaði.