Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefst milljarðs fyrir Guðjón Skarphéðinsson

Mynd: Skjáskot / RÚV
Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, hefur krafist miskabóta upp á rúman milljarð króna vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins. Guðjón var sýknaður í Hæstarétti í fyrra, 38 árum eftir að dómur um sekt féll í Hæstarétti. Þetta kom fram í Silfrinu í morgun.

Fram kom í fréttum RÚV á föstudag að sáttanefnd forsætisráðherra hafi úr 600 milljónum króna að moða til handa öllum aðilum máls. Forsætisráðherra hefur ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu og ekki hefur náðst í formann sáttanefndarinnar.

Ragnar segir að það hafi verið einhver mistök hjá ríkinu þegar það fór að huga að því bæta miska þeirra sem voru sakfelldir í málinu og bendir á að afleiðingarnar af þessum dómum hafi varað í nærri fjörutíu ár. Hann segist hafa boðað kröfur strax í október og lagt þær síðan fram í desember en ekki fengið nein viðbrögð. „Miskabæturnar eru nálægt milljarði og atvinnutjón er nálægt 120 milljónum.“ Ragnar tekur skýrt fram að hann sé bara að tala um sinn skjólstæðing. 

Ragnar rakti síðan hvernig málsmeðferðin hefði verið og hvernig stjórnmálamenn hefðu rætt um málin á opinberum vettvangi. Hann sagði að þó að þessar tölur væru mjög háar þá væri of mikill mismunur á þeim og því sem ríkið hefur sagt að úr sé að moða. „Menn verða því að semja og komast að einhverri niðurstöðu.“

Hann sagði að hafa yrði málið í huga í heild sinni og allan þann tíma sem það hefði tekið og hversu mikilvægt það væri í huga almennings að fólk nyti réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi. „Þegar orðið hafa svona stór mistök af hálfu ríkisvaldsins þá verður ríkið að segja fólki að svona gerist ekki aftur og að það ætli að tryggja að það verði gert þannig að það sé augljóst að hvorki lögregla né dómstólar geti gert svona mistök aftur.“

Ragnar segir að enginn vilji sjá þessi mál fara fyrir dómstóla því það  gæti tekið sinn tíma og mögulega endað fyrir Hæstarétti. Hann segist eiga von á því að ríkið teygi sig til þeirra. „Ég held að ríkisvaldið muni endurskoða grunninn og átta sig á því að þessi upphaflega upphæð var ekki rétt þannig að nú hefjist rétt og nýtt upphaf. “ Hann kvaðst vona að fólk í efstu lögum ríkisvaldsins væri núna að hugsa sinn gang.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV