Krefst fundar með Pompeo og að hætt verði við ferðabann

12.03.2020 - 12:57
Mynd:  / 
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur krafist þess formlega  að bandarísk stjórnvöld hætti við ferðabann frá Íslandi. Hann mótmælir aðgerðum bandarískra stjórnvalda harðlega og hefur óskað eftir símafundi með Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Guðlaugur Þór furðar sig á því að ekkert samráð hafi verið haft við stjórnvöl í þeim löndum sem bannið tekur til.

Guðlaugur Þór hefur þegar komið mótmælunum á framfæri við bandarísk stjórnvöld.

„Og í morgun hef ég átt símtal við sendiherra Bandaríkjanna sem er staddur í Kaliforníu. Ég kallaði staðgengil hans á minn fund í morgun. Og þar hef ég komið hörðum mótmælum á framfæri og lagt ríka áherslu á að það verði fundin lausn fyrir Ísland byggt á tvennu; annars vegar landfræðilegri legu okkar og hins vegar hvað við erum búin að gera til að hefta útbreiðslu COVID-19 hér á landi,“ segir Guðlaugur Þór.

Hvernig tók fulltrúi bandarískra stjórnvalda þessum mótmælum?

„Hann tók því í sjálfu sér bara vel og mun koma því á framfæri. En við munum ekki bara koma þeim á framfæri í gegnum sendiherrann og sendiráðið hér á landi heldur sömuleiðis sendiráð okkar í Washington, og eftir öllum þeim leiðum sem við teljum geta gagnast í þessu máli.“

Ertu bjartsýnn á að þessi mótmæli skili árangri?

„Ég ætla ekkert að tjá mig um það. Aðalatriðið er að þessi staða er komin upp og nú þurfum við að gera allt hvað við getum til þess að vinna úr henni. Þetta er einn angi hennar en eins og við þekkjum þá eru fleiri spjót sem standa að okkur. Og ég var ánægður að heyra umræðuna í þinginu í morgun þar sem ég gat ekki heyrt annað en að það væri samstaða meðal allra forystumanna stjórnmálaflokkanna, að vinna saman að því að vinna okkur út úr þessu ástandi. Og það er bara einn kostur við stöðuna eins og hún er í dag; að vitum að þetta er tímabundið.“

Ekkert samráð

Hvað er það sérstaklega sem þér finnst slæmt við þetta ferðabann?

„Þetta er gert án nokkurs samráðs við þau lönd sem verða fyrir því. Og ef við ætlum að vinna að því, sem við verðum að gera, að hefta útbreiðsluna, þá er það eitthvað sem við verðum að gera saman. Og þetta mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar að öllu óbreyttu, og þá sérstaklega fyrir Ísland.“

Þannig að þetta bann kom þér algjörlega í opna skjöldu?

„Þetta bann kom öllum í opna skjöldu, held ég.“

Bretar eru teknir sérstaklega út fyrir sviga, hvað finnst þér um það?

„Það liggur alveg fyrir að ef menn ætla að taka eitthvað út fyrir sviga, að þá myndu menn auðvitað líta sérstaklega til Íslands. Við erum bara með einn stað inn og út úr landinu og ef einhverjir eiga möguleika á því að gera ráðstafanir, þá erum það við Íslendingar.“

Búinn að ræða við Isavia og Icelandair

Þannig að þú, og utanríkisráðuneytið, ætlið að beita ykkur fyrir því að þessu banni verði aflétt?

„Við höfum nú þegar byrjað á því og við munum halda því áfram.“

Hafið þið eitthvað sett ykkur í samband við sendiráð Íslands í Bandaríkjunum?

„Að sjálfsögðu erum við búin að vera í sambandi við það og við munum halda því áfram.“

Að hverju miðar ykkar vinna í ráðuneytinu í dag og næstu daga?

„Okkar vinna miðar að því að gera hvað við getum til þess að hjálpa til við þessar erfiðu aðstæður og koma sjónarmiðum okkar á framfæri. Það hefur mikið verið að gera í ráðuneytinu í tengslum við borgaraþjónustuna og annað sem þessum málum við kemur. Og við munum halda því áfram. Og í morgun, eins og ég nefndi, þá erum við búin að eiga þessa fundi, og sömuleiðis er ég búinn að eiga samráð við Isavia og Icelandair og samráð við þá ráðherra sem að málum koma, kallað eftir fundi í utanríkismálanefnd og farið fram á símafund við Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna,“ segir Guðlaugur Þór.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi