Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Krefjast upplýsinga um greiðslur til Báru

26.04.2019 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins, sem kvörtuðu til Persónuverndar vegna Klausturmálsins, hefur lagt fram kröfu um aukna gagnaöflun í málinu. Þar er þess meðal annars krafist að fá upplýsingar frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru Halldórsdóttur á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember. Þetta staðfestir forstjóri Persónuverndar.

Persónuvernd hefur haft Klausturmálið til umfjöllunar síðan um miðjan desember. Þá sendi lögmaður fjögurra þingmanna Miðflokksins stofnuninni bréf þar sem þess var krafist að rannsakað yrði hver hefði staðið að upptöku á samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri.  Málið var sett á bið eftir að þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir héraðsdóm og síðar Landsrétt þar sem kröfum þeirra var hafnað.

Nú hefur lögmaður fjórmenninganna lagt fram kröfu til Persónuverndar um aukna gagnaöflun í málinu.  Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir í samtali við fréttastofu að krafan snúist um frekara vöktunarefni úr öryggismyndavélum Klausturs og Kvosarinnar Downtown Hotels stuttu fyrir og eftir að Bára sat þar sem og upplýsingar frá fjarskiptafyrirtækjum um smáskilaboð og símtöl til og frá Báru á tveggja daga tímabili. Þá krefst lögmaður þingmannanna upplýsinga frá fjármálafyrirtækjum um greiðslur inn á reikning Báru á tímabilinu 15. nóvember til 15. desember.

Helga sagðist ekki geta tjáð sig neitt frekar um málið en sagði að krafan yrði afgreidd á stjórnarfundi Persónuverndar á mánudag. Sú afgreiðsla yrði birt eins fljótt og auðið er og mætti gera ráð fyrir að það yrði að morgni næsta dags.

Mynd með færslu
 Mynd:

Persónuvernd er ekki eini vettvangurinn þar sem fjallað er um Klausturmálið. Í lok síðasta mánaðar komst siðanefnd Alþingis að því að hegðun þingmannanna á staðnum félli undir gildissvið siðareglna Alþingis. Þeir væru opinberar persónur og að háttsemi þeirra hefði átt sér stað á opinberum vettvangi.  Nefndin tók þó ekki afstöðu til þess hvort háttsemi þeirra teldist brot á siðareglum Alþingis. 

Þingmenn Miðflokksins voru mjög ósáttir við þessa niðurstöðu og gagnrýndu meðal annars að álit siðanefndar hefði verið birt á vef Alþingis án þess að þeim hefði gefist færi á að skila andmælum. Fyrir lægju nýjar og veigamiklar upplýsingar sem sýndu „að mat siðanefndarinnar væri byggt á röngum forsendum.“ Þeir fengu síðan frest til 2. apríl til að bregðast við áliti siðanefndarinnar.

Haraldur Benediktsson, annar af aukavaraforsetum Alþingis, segir í samtali við fréttastofu að andmæli þingmannanna hafi borist en þau hafi engu breytt. Þau hafi nú týnt til ummæli sem eru á upptökunum og sent þingnmönnunum og nú gefist þeim tækifæri til að tjá sig um þau ummæli. „Málið er núna loksins byrjað,“ segir Haraldur. 

Hann segir að þarna fái þingmennirnir gullið tækifæri til að tala fyrir sínum sjónarmiðum og hrekja það sem þeir telji hafi farið aflaga.  Haraldur tekur þó fram að það liggi ekki fyrir hvort mál allra þingmannanna sex verði síðan tekin fyrir hjá siðanefndinni.