Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Krefjast aðgerða í fangelsismálum hérlendis

05.07.2019 - 08:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Í bráðabirgðaskýrslu pyntinganefndar Evrópuráðsins um aðbúnað í fjórum íslenskum fangelsum segir að bæta megi ýmis atriði er varða málefni fanga hér á landi og hefur hún veitt stjórnvöldum þriggja mánaða frest til að skila ítarlegri aðgerðaáætlun um endurbætur.

Alþjóðleg nefnd um pyntingar og ómannúðlega eða niðurlægjandi meðferð eða refsingar sótti Ísland heim 7.-24. maí, í fimmta skipti. Fangelsið á Hólmsheiði var heimsótt í fyrsta sinn en einnig farið í fangelsin á Akureyri, Kvíabryggju og Litla-Hraun sem nefndin hefur áður skoðað.

Skýrslan er að mestu jákvæð um aðstæður fanga í íslenskum fangelsum en engu að síður sé úrbóta þörf á nokkrum sviðum.

Þess er krafist af íslenskum stjórnvöldum að þau sendi nefndinni ítarlega aðgerðaáætlun til að bæta heilbrigðisþjónustu við fanga og koma í veg fyrir eiturlyfjanotkun innan íslenskra fangelsa. Í skýrslunni segir að þrátt fyrir gott samstarf við íslensk yfirvöld þurfi þau samt sem áður að bregðast við ábendingum nefndarinnar hið snarasta.

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV

Enn ekki gripið til fullnægjandi aðgerða

Í skýrslunni er lýst áhyggjum af takmörkuðum aðgerðum til að leiðrétta fyrri vankanta í fangelsismálum sem nefndin hefur áður gert grein fyrir, sum þeirra í fyrstu heimsókn hennar hingað fyrir 26 árum. Meðal þeirra atriða eru aðgerðir gegn eiturlyfja- og áfengisfíkn innan veggja íslenskra fangelsa og lög sem heimila sjúkrahúsvistun fanga á geðdeild gegn vilja þeirra.

Ofbeldi milli fanga á Litla-Hrauni er nefnt sérstaklega og segir í skýrslunni það tengjast eiturlyfjum. Þó að starfsfólk þar hafi reynt að bregðast við ofbeldi milli fanga, til að mynda með því að skilja þá í sundur og með öðrum leiðum, beri í augum uppi að ekki hafi verið ráðist með fullnægjandi hætti að rót vandans.

Gluggalausir klefar á Akureyri þegar teknir út notkun

Gluggalausir fangaklefar á Akureyri, þar sem föngum í gæsluvarðhaldi hefur verið haldið í einangrun í allt að tvær vikur, eru einnig gagnrýndir og hefur nefndin þungar áhyggjur af þeim aðbúnaði. Nefndin krefst þess að yfirvöld staðfesti innan mánaðar að klefarnir hafi verið teknir úr notkun og allir gæsluvarðhaldsfangar á Akureyri séu vistaðir í klefum með viðunandi aðgang að náttúrulegu ljósi.

Dómsmálaráðuneytið hefur þegar brugðist við þessari ósk nefndarinnar og klefarnir teknir úr notkun. Unnið sé að endurbótum í samræmi við aðrar ábendingar hennar, til að mynda um geðheilbrigðisþjónustu við fanga en unnið hafi verið að því í samstarfi milli dómsmála- og heilbrigðisráðuneytisins. Búið sé að óska eftir tilnefningum í hóp um úrbætur í fangelsismálum og mun dómsmálaráðherra skipa hann á næstunni.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Mestar áhyggjur af heilbrigðisþjónustu við fanga

Nefndin lýsir mestum áhyggjum sínum af heilbrigðisþjónustu við fanga, of fáir heilbrigðisstarfsmenn starfi innan veggja íslenskra fangelsa, einkum á Litla-Hrauni og Hólmsheiði. Þrátt fyrir 26 ára gömul tilmæli hennar um kerfisbundna skimun nýrra fanga, til að mynda vegna smitsjúkdóma eða áverka, hafi ekki enn verið gerð bót á því. Slíkt sé óásættanlegt bæði til að koma í veg fyrir illa meðferð á föngum og hættulegt út frá sjónarmiðum um lýðheilsu.

Aðgengi fanga að sérfræðilæknum, einkum geðlæknum en einnig tannlæknum sé ábótavant. Fangar sem glími við andleg veikindi fá ekki þá þjónustu sem þeir eigi rétt á, til dæmis vistun á geðsjúkrahúsi.

Engin heildstæð áætlun um eiturlyfjanotkun

Fram kemur í bráðabirgðaskýrslu nefndarinnar að hérlend yfirvöld verði að gera fullnægjandi áætlun um aðgerðir gegn dreifingu og neyslu eiturlyfja innan veggja fangelsa, sem. Hún krefst þess að slík áætlun verði lögð fram innan þriggja mánaða þar sem tilgreindar verði aðgerðir um aðgerðir gegn fíkniefnanotkun og viðunandi heilbrigðisþjónustu fyrir fanga.

Fangelsismálayfirvöld hafi ekki brugðist við þeim atriðum sem nefnd hafi verið í fyrri skýrslum, til dæmis um lög um nauðungarvistun á sjúkrahúsum. Þau séu ekki fullnægjandi.

thorvardurp's picture
Þorvarður Pálsson
Fréttastofa RÚV