Krapastíflan í Hvítá umfangsmikil og ógnar sumarhúsum

14.01.2020 - 17:37
DCIM\100MEDIA\DJI_0561.JPG
 Mynd: Lögreglan á Suðurlandi
Krapastíflan í Hvítá er umfangsmikil en væntanlega rennur vatn undir hana. Lögreglan á Suðurlandi kannaði aðstæður í dag og myndaði svæðið. Vatn flæðir yfir vegi að sumarhúsum og vatnsyfirborðið má ekki hækka mikið áður en það fer að flæða að húsum.

„Höskuldslækurinn og Hvítáin hafa gott afrennsli,“ segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn á Selfossi, sem kannaði aðstæður í dag. Hann segir þó að aðstæður gætu breyst hratt. „Ef það verður asahláka þá verður það kannski ekki gott fyrir eigendur sumarhúsa í nágrenninu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - Kort

Í tilkynningu lögreglunnar í morgun segir að óttast hafi verið að ós Höskuldslækjar sem rennur í Hvítá væri lokaður og að vatnið úr honum leggðist að sumarhúsabyggðinni á bökkum árinnar í Vaðnesi.

Oddur segir lítið hægt að gera til þess að rjúfa klakastífluna og að ekki verði farið í aðgerðir til þess.

Klakastífla myndaðist á sama stað í febrúar 2018. Þá flæddi að sumarhúsum þannig að vatnstjón varð. Stíflan ruddi sig skömmu síðar. 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi