Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kranar og loftpúðar notaðir til að koma vélinni í burtu

Mynd með færslu
 Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson - Víkurfréttir
Notast þurfti við tvo krana, loftpúða og tjakk þannig að hægt væri að flytja Herðubreið, flugvél Icelandair, af flugbrautinni í Keflavík. Verið er að koma henni fyrir flugskýli þar sem hún verður rannsökuð frekar. Hjólabúnaður vélarinnar brotnaði við lendingu í gær og það verður „talsverður tími,“ þar til vélin verður tekin í notkun á ný.

Rauðu hættustigi var lýst yfir á Keflavíkurflugvelli síðdegis í gær eftir að hægra aðalhjól flugvélarinnar hafði gefið sig í lendingu og eldneistar sáust frá hreyflinum. Engin slys urðu á fólki en 166 manns voru um borð í vélinni.

Vélin er nú komin af flugbrautinni en flugritar hennar verða sendir til greiningar á næstu dögum. Vélinni verður nú komið fyrir í flugskýli þar sem hún verður skoðuð frekar. 

Ragnar Guðmundsson hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa segir í samtali við fréttastofu að það hafi verið heilmikið verk að rétta flugvélina af þannig að hægt væri að setja hjólastell undir hana. „Það voru notaðir tveir kranar og loftpúðar settir undir vænginn og hún hækkuð þannig.“ 

Ragnar segir að svo hafi tjakkur verið  settur undir hana þannig að hægt væri að vinna við hjólastell vélarinnar. Skipta þurfti um ákveðna hluti og svo voru aðrir hlutir sem nefndin tók og verða rannsakaðir frekar.  Legið hafi svolítið á að ná vélinni af flugbrautinni því ef vindur hefði snúist hefði Keflavíkurflugvöllur geta lokast. „Það fer eftir vindátt hvaða flugbraut er notuð.“

Ragnar segir að það verði talsverður tími þar til vélin fari aftur á flug. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort þetta verði flokkað sem alvarlegt flugatvik eða flugslys. 

Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavía, segir í samtali við fréttastofu að nú sé verið að vinna að því að hreinsa flugbrautina og þrífa, meðal annars af olíu sem hafi lekið. Hann á von á því að hreinsunarstarfinu ljúki í kvöld. Allt flug hafi verið á áætlun þrátt fyrir atvikið.

Ekki náðist í Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair.