Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Krakkafréttir útskýra Covid-19

05.03.2020 - 12:04
Mynd: Skjáskot / Skjáskot
Undanfarna mánuði hefur Covid-19 verið mikið í fréttum, sérstaklega eftir að fyrsta smitið var greint hér á landi. Kórónaveiran og Covid-19 var til umfjöllunar í Krakkafréttunum í gær þar sem rætt var við Ölmu Möller landlækni.

Allt frá því að kórónuveira var fyrst greind í Wuhan í Kína hefur hún dreift til yfir 70 landa. Mörgþúsund manns hafa smitast - þar á meðal nokkrir á Íslandi. En hvað er kórónaveira nákvæmlega?

Kórónaveirur valda ýmsum sjúkdómum hjá mönnum og dýrum. COVID-19 er heiti smitsjúkdómsins sem nýja kórónaveiran veldur. Veiran var óþekkt áður hún greind í desember í fyrra í borginni Wuhan í Kína.

Mikil áhersla hefur verið lögð á að hefta útbreiðslu sjúkdómsins og að rekja smitleiðir. Þá hefur fólk verið hvatt til þess að huga að hreinlæti og forðast náin tengsl manna á milli. Fjölmargir hér á landi eru í sóttkví eftir að hafa verið á skilgreindum hættusvæðum þar sem kórónaveiran hefur dreifst hratt, sér í lagi á Ítalíu.

En þurfa krakkar að óttast veiruna?

„Krakkar eru svo heppnir að þeir veikjast minna en fullorðnir af þessari veiru. Þeir sem veikjast mest eru þeir sem eru eldri. Það sem við þurfum öll að gera er að vera yfirveguð og róleg. Það er að fylgjast með upplýsingum frá áreiðanlegum heimildum, eins og landlaeknir.is því það er fullt af allskonar bulli og hindurvitnum á netinu. Og það þarf þá kannski að ræða það við foreldra sína,“ segir Alma Möller, landlæknir. 

Umfjöllun Krakkafrétta um Covid-19 veiruna má sjá í spilaranum hér að ofan.