Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Krafðist þess að FBI færi af landi brott

31.01.2013 - 15:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandarísku lögreglumennirnir sem komu hingað haustið 2011 vildu yfirheyra íslenskan ríkisborgara vegna Wikileaks-málsins. Innanríkisráðherra var ekki kunnugt um komu lögreglumannanna fyrr en ríkissaksóknari sagði honum frá því - hann krafðist þess að þeir færu af landi brott.

Talsmaður Wikileaks, Kristinn Hrafnsson greindi frá þessu máli í Kastljósi í gærkvöld. Þetta gerðist haustið 2011.Ögmundur jónasson er innanríkisráðherra.  „Ég get staðfest að að morgni dags 25.ágúst 2011 frétti ég að til landsins væru komnir menn frá Bandarísku alríkislögreglunni FBI og hefðu óskað eftir samstarfi við ríkissaksóknara og embætti ríkislögreglustjóra um rannsókn sem tengdist WikiLeaks.“

ögmundur segist hafa fengið þær upplýsingar að lögreglumennirnir hefðu viljað ræða við tiltekinn einstakling - íslenskan ríkisborgara - útaf wikileaks málinu - og vildu hafa íslenska lögreglumenn sér til fulltingis. „Þegar ég frétti af þessu óskaði ég eftir því að öllu samstarfi yrði hætt þegar í stað.“ Hann segist hafa heyrt af þessu máli frá embætti ríkissaksóknara. Hann veit ekki til þess að svona mál hafi áður komið upp hér á landi. 

Bandarísku lögreglumennirnir sem hingað komu á einkaflugvél voru farnir vestur um haf daginn eftir og formlegri kvörtun var komið á framfæri við bandarísk stjórnvöld. „Þeir hurfu á brott, enda mun utanríkisráðuneytið einnig hafa haft samband við sendiráðið. Utanríkisráðherra brást hárrétt við hvað það snertir og þeir hurfu af landi brott,“ segir Ögmundur. Hann segir að einu eftirmálin af þessu hafi verið þau að nú sé öllum ljóst hvar mörkin liggi.