Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

KR semur við ítalsk-bandarískan leikstjórnanda

Mynd með færslu
 Mynd:

KR semur við ítalsk-bandarískan leikstjórnanda

07.01.2019 - 09:30
Fimmfaldir Íslandsmeistarar KR hafa samið við leikstjórnanda sem verður löglegur strax í næsta leik liðsins gegn Keflavík. Sá heitir Mike DiNunno og er ítalsk-ættaður Bandaríkjamaður. Þar sem DiNunno er með tvöfalt ríkisfang kemur hann til KR-inga sem Evrópumaður og getur því leikið við hlið Bandaríkjamannsins Julian Boyd samtímis á vellinum.

DiNunno er 28 ára og lék með háskólaliðum Northen Illinois og Eastern Kentucky en hélt svo í atvinnumennsku erlendis. Hann lék síðast með BC Beroe í Búlgaríu en þá hefur hann einnig verið á mála hjá Iraklis Thessaloniki í Grikklandi og Cheshire Phoenix í bresku deildinni.

DiNunno, sem er 180 sentimetrar, er fæddur og uppalinn Illnoisríki í Bandaríkjunum en er af ítölskum ættum og fékk ítalskt vegabréf 2013. 

KR-ingar hafa bætt við sig mannskap upp á síðkastið en í sigrinum á Skallagrími í Borgarnesi í gærkvöld lék Helgi Már Magnússon einnig með liðinu. Helgi, sem er uppalinn í KR, skoraði 9 stig á tæplega 15 mínútum í öruggum sigri KR. 

KR er ásamt Stjörnunni og Keflavík í 3. til 5. sæti úrvalsdeildarinnar eftir tólf umferðir en Keflvíkingar eiga leik til góða í kvöld. Keflavík tekur þá á móti Njarðvík í Suðurnesjaslag í Sláturhúsinu.