Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Köttur höggvinn sundur í Hveragerði

20.09.2017 - 09:31
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Á síðustu árum hefur köttum í Hveragerði verið byrlað eitur, þeir fluttir yfir Ölfusá og skildir eftir, og nú á dögunum fannst köttur sem búið var að höggva sundur. Bergljót Davíðsdóttir, íbúi í Hveragerði, segir að mikilvægt sé að komast til botns í málinu sem sé samfélagsmein.

„Þetta hefur komið upp árlega á sumrin. Tvö ár í röð, 2015 til 2016, komu kettir emjandi heim eftir að hafa étið fiskflak sem búið var að setja frostlög yfir,“ segir Bergljót. Við krufningu hafi komið í ljós að kettirnir drápust af eitri. Bergljót hefur kannað þetta mál og segir að margir hafa sent henni skilaboð. „Ég fann að fólk var hrætt að ræða þetta og það þótti mér slæmt að vita.“

Óttast um köttinn sinn

Köttur Bergljótar er týndur og óttast hún um afdrif hans. Hún auglýsti eftir honum á samfélagsmiðlum og frétti þá frá dreng að dauðir kettir væru við yfirgefinn sveitabæ í bæjarfélaginu. „Ég sá mig knúna til að fara þangað og athuga hvort þetta væri minn köttur. Ég ætlaði ekki að trúa þessu fyrst. Ég fór þangað og fann þar einn kött sem búið var að taka í tvennt.“ Bergljót tilkynnti málið til lögreglu.

Kettir mögulega fluttir burt frá Hveragerði

Heimiliskettir úr Hveragerði hafa fundist í Grímsnesi og víðar á Suðurlandi. Í sumum tilfellum komast þeir ekki yfir Ölfusá og aftur heim. „Í mig hringdi kona úr Öndverðarnesi og sagði að þar væri talsvert um ketti sem enginn þekkir. Þar hafa fundist kettir úr Hveragerði.“

Bergljót segir ljóst að erfitt geti verið fyrir lögreglu að komast til botns í þessum málum. „Það er ekki eins og fólk hafi verið drepið og lögreglan fari á fullt að rannsaka.“ Hún segir mikilvægt að halda umræðu um málið gangandi. „Það fer af stað mikið fár þegar fólk missir dýrin sín svona og veit ekkert hvað er í gangi. Fólk óttast að þeirra köttur sé næstur. Vanalega lognast umræðan út af þegar tímabil koma og ekkert gerist. Það má ekki drepa þetta mál niður því að þetta er samfélagslegt mein sem kemur af stað ugg og leiðindum í bænum og hann fær á sig slæmt orð, sem er ekki réttlátt.“

Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum hérna fyrir ofan.