Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kostnaður við bragga langt umfram áætlun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Endurbætur á gömlum bragga við Nauthólsvík í Reykjavík, náðhúsi og skála þar sem eitt sinn var flughótel hafa farið langt fram úr kostnaðaráætlun. Framkvæmdirnar hafa kostað 415 milljónir. Bragginn nýtur verndar í deiliskipulagi borgarinnar enda er hann talinn vera kennileiti og minjar um hernámsárin í borginni.

Við Nauthólsveg 100 stendur þyrping húsa sem reist voru árið 1943 sem gistihús fyrir þá sem áttu leið um Reykjavíkurflugvöll og hét á sínum tíma Hotel Winston. Bragginn er orðinn að matsölustað, náðhúsið verður brátt að fyrirlestrarsal fyrir Háskólann í Reykjavík og skálinn að frumkvöðlasetri. 

„Við gátum haldið stærð braggans eins og hann var. Við þurftum hins vegar og vildum auðvitað einangra hann og gera hann að nútímabyggingu, við þurftum að endurnýja sökkla og fleira, þannig að nú erum við komin með bogaskála sem lifir í mörg ár, öðruvísi en bogaskálarnir voru en þeir voru auðvitað tímabundin húsnæði,“ segir Margrét Leifsdóttir, arkítekt við verkefnið. „Það efni sem við gátum ekki notað í húsinu sjálfu reyndum við að nota í lóðina.“

Dýrara að halda við en að byggja nýtt

Þá sé gamalt efni í náðhúsinu nýtt í endurbótunum, þrátt fyrir að óprúttinn skemmdarvargur hafi reynt að kveikja í húsinu fyrir allnokkrum árum. „Þar erum við líka að nýta brenndu burðarbitana og ætlum að nota þá í hönnuninni í fyrirlestrar- og fjölnotasalnum, þar sem þeir koma til með að njóta sín. Og gera þannig sögunni dálítið hátt undir höfði, þannig að fólk geti upplifað söguna í þessum byggingum, það finnst okkur mikilvægt.“

Upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 158 milljónir en framkvæmt hefur verið fyrir 415 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Borgarráð hefur samþykkt aukinn kostnað við framkvæmdirnar. Innkauparáð borgarinnar skoðar nú hvers vegna kostnaður hljóp fram úr áætlun.

„Það vill því miður vera þannig oft, ekki alltaf, að það er meiri kostnaður þegar maður er að gera upp og er með miklu fleiri óvissuþætti heldur en þegar maður er að rífa og byggja nýtt frá grunni,“ segir Margrét. „Það er ótrúlega sterkt og mikilvægt í þessu verkefni að hafa ákveðið að halda í þessi hús og gera þau upp eins og þau eru.“

Matthías Tryggvi Haraldsson
Fréttastofa RÚV