
Morgunútvarpið á Rás 2 fékk FÍB til að reikna hvað það kostaði að reka bíl eins og þann sem Ásmundur á í eitt ár. Niðurstaðan er sú að reksturinn, með fjármagnskostnaði, kostar 2,07 milljónir á ári, sem er tveimur og hálfri milljón króna minna en Ásmundur fékk í endurgreiddan aksturskostnað í fyrra. Væri bíllinn nýr næmi kostnaðurinn 2,44 milljónum á ári.
Meiri verðrýrnun vegna mikils aksturs
Bíllinn er Kia Sportage-jepplingur, fjórhjóladrifinn dísilbíll, sem kom nýr á götuna í mars 2016. Ásmundur keypti hann notaðan í desember sama ár. Bíll af þessari gerð kostaði í maí 2016 6,7 milljónir króna.
FÍB reiknar með að bíllinn falli meira í verði á ári hverju en meðalbíll, enda hefur komið fram að Ásmundur ekur mjög mikið. Í fyrra ók hann tæpa 48 þúsund kílómetra. Því reiknar FÍB með 18% verðfalli á milli ára, sem þýðir að ásett verð á bíl Ásmundar gæti í dag verið um 3,8 milljónir króna.
Fjármagnskostnaður reiknaður inn
FÍB gerir ráð fyrir að bíllinn eyði 7 lítrum af dísilolíu á hverja 100 kílómetra, sem þýðir eyðslu upp á 3.335 lítra í fyrra, sem kosta tæplega 654 þúsund krónur. Þá er gert ráð fyrir 270 þúsund króna viðhaldskostnaði og 90 þúsund krónum í hjólbarða. Reiknað er með 160 þúsund krónum í tryggingar og 26 þúsund krónum í skatta og skoðun.
Þá gerir FÍB ráð fyrir 13 þúsund króna kostnaði við bílastæði og 36 þúsund krónum í þrif og fleira. Inn í heildarrekstrarkostnaðinn reiknast svo 18% verðrýrnun, sem á þessu ári næmi 684 þúsund krónum. FÍB reiknar svo fjármagnskostnað inn í rekstrarkostnað – það er tapaða innlánsvexti sem hefðu getað lagst á peninginn, sem annars er bundinn í bílnum. Þetta eru tæpar 139.000 krónur í ár.
Samtals lítur reikningsdæmið svona út:
653.676 kr – Dísilolía
270.000 kr – Viðhald og viðgerðir
90.000 kr – Hjólbarðar
160.000 kr – Tryggingar
26.000 kr – Skattar og skoðun
13.000 kr – Bílastæðakostnaður
36.000 kr – Þrif og fleira
684.000 kr – Verðrýrnun
138.700 kr – Fjármagnskostnaður
Samtals: 2.071.376 krónur
FÍB reiknar einnig rekstrarkostnað af nýjum bíl af þessari gerð, sem kostar í dag 5,5 milljónir króna. Við þá útreikninga eykst verðrýrnunin upp í 990 þúsund krónur og fjármagnskostnaðurinn upp í rúmar 200 þúsund krónur. Samtals eyst rekstrarkostnaðurinn þá upp í 2,44 milljónir króna.