Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kostar rúman milljarð á ári að reka Miðhálendisþjóðgarð

18.12.2019 - 20:44
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis og auðlindaráðherra segir að stofnun Miðhálendisþjóðgarðs verði stærsta framlag Íslendinga til  umhverfismála fyrr og síðar. Verðmæti víðernanna séu einstök og tækifæri séu fólgin í byggðarmálum með stofnun þjóðgarðsins. Rætt var við Guðmund Inga Guðbrandsson í Kastljósi í kvöld.

Rannsókn sem stjórnvöld hafi látið gera í fyrra sýni að  hver króna sem ríkið setji sé inn í friðlýst svæði skili sér til baka sem 23 krónur. Hann segir að Ísland geti skapað sér samkeppnisforskot í ferðaþjónustu með því að bjóða upp á stærsta þjóðgarð í Evrópu. Þjóðgarðar séu eitthvað sem fólk í heiminum sæki mikið í að heimsækja á ferðalögum sínum.   Það að vera með náttúru sé aðdráttarafl.  Á sama tíma þurfi að huga að vernd þeirra svæða. Fjöldi spurninga vöknuðu hjá fólki þegar hugmyndir komu fram um stofnun þjóðgarðs á hálendinu eins og hvort að 
hálendinu yrði hreinlega lokað. Guðmundur segir að það sé ekki á dagskrá.

„ Nei, þjóðgarðar eru ekki þess eðlis að það sé bara lok lok og læs og allt í stáli, heldur eru þeir einmitt hugsaðir til að vernda náttúruna og 
gera fólki kleyft að njóta hennar. Útivist, hvort sem það eru hestaferðir, snjósleðaferðir, gönguferðir eða jeppaferðir er allt eitthvað sem rúmast að 
sjálfsögðu innan þjóðgarða. Eitt af mjög mikilvægum hlutverkum þjóðgarða er að fræða um náttúruna og þar með að auka tengsl manns og
 náttúru sem við horfum stundum til þegar við horfum til heilsu okkar.“ segir Guðmundur.

Kostar rúman milljarð á ári í rekstri

Rekstur þjóðgarðsins verður mun kosta vel yfir milljarð króna á ári segir Guðmundur. Ekki sé þó útséð að öllu leiti hversu kostnaðarsamir innviðir þjóðgarðsins séu. Það eigi eftir að koma í ljós. Stjórnkerfi verði þannig byggt upp að áhersla sé lögð að stjórnun Hálendisþjóðgarðs sé bæði hjá ríki og 
viðkomandi sveitarfélögum. Gert sé ráð fyrir að sérstök stjórn, sem í sitji ellefu stjórnarmenn, fari með stjórn þjóðgarðsins og að hún verði að
 meirihluta skipuð fulltrúum sveitarfélaga, auk félagasamtaka og hagsmunaaðila. Þá verði þjóðgarðinum skipt upp í sex rekstrarsvæði og yfir hverju þeirra sérstakt umdæmisráð, skipað fimm fulltrúum sveitarfélaga, 
auk fulltrúum frá útivistarsamtökum, umhverfisverndarsamtökum, Bændasamtökum Íslands og ferðaþjónustuaðilum. Öll stefnuvinna sé unnin í 
samstarfi þeirra. 

Sveitastjórnarstigið uggandi yfir þjóðgarði

Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir að skort hafi upp á samráð við sveitarfélögin um hvort að stofna eigi hálendisþjóðgarð, 
heldur hvernig eigi að gera það. Upp á vanti hvort að gera eigi það yfir höfuð.  Þá séu sveitarstjórnarmenn uggandi yfir því að 
skipulagsvald þeirra færist frá þeim til ríkisins með tilkomu stjórnar og  verndaráætlunar þjóðgarðs. Þá sé fjármögnun ekki tryggð að þeirra mati.
Guðmundur segir að það muni taka sex ár að koma þjóðgarðinum á. Það sé orðið tímabært að ræða málið á Alþingi. Rammaáætlun verður lögð fram 
á sama tíma og frumvarpið. Þar koma fram hvernig orkunýtingu verður háttað og hvernig búið verður um orkunýtingarkosti innan þjóðgarðsins. 
Hann segir að það segi sig sjálft að það kalli á strangari reglur um nýtingu virkjanakosta innan þjóðgarðs. Búið sé að ræða málið ítarlega á borði 
stjórnarflokkanna. Guðmundur segist bjartsýnn á að samkomulag muni nást innan þeirra um að afgreiða málið farsællega.

Varð fyrir vonbrigðum með Madríd

Guðmundur segir að ríki heims verði að komast að niðurstöðu í jafn stóru máli og loftslagsmálin séu. Hann sgir að þegar líf fólks á Jörðinni liggi við 
verði  meirihluti ríkja að vera ráðandi til að samþykkja breytingar. Það skarist hins vegar á við sjálfsákvörðunarrétt ríkja. Hann vonar að árangur 
verði meiri á sambærilegri ráðstefnu í Glasgow á næsta ári.

Horfa má á Kastljós kvöldsins hér.