Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kostar 13 milljarða að útrýma einbreiðum brúm

23.02.2016 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir - RÚV
Alls eru 39 einbreiðar brýr eru á þjóðvegi 1 og um 13,2 milljarða króna myndi kosta að skipta þeim öllum út. Þetta kemur fram í svari innanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdís Hauksdóttur. Flestar eru einbreiðar brýr í Suðurkjördæmi eða 26 talsins. 13 eru í Norðausturkjördæmi.

Í svarinu kemur fram að 9,4 milljarða myndi kosta að skipta út einbreiðum brúm á þjóðvegi 1 í Suðurkjördæmi og 3,8 milljarða í Norðausturkjördæmi. Alls liggja tæpir 4 kílómetrar af einbreiðum brúm á landinu. 30 brýr eru á 300 kílómetra kafla, frá Kirkjubæjarklaustri að Djúpavogi.

Alls eru 694 einbreiðar brýr á landinu öllu. Þar af eru 197 þeirra á vegum þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 kílómetrar á klukkustund. Talið er að um 30 milljarða myndi kosta að skipta út brúnum 197 þar sem hámarkshraði er leyfilegur. Þetta koma fram í svari innanríkisráðherra síðasta vetur við fyrirspurn Haraldar Einarssonar.

Banaslys við einbreiðar brýr hafa verið fátíð undanfarin ár en tvö alvarleg slys urðu í desember og febrúar. Erlendur ferðamaður lést í slysinu í desember en betur fór en á horfðist þegar vörubifreið og sendibíll skullu saman við brúnna yfir Stigá í Öræfum í febrúar.