Kosningar í Bretlandi - Samantekt

13.12.2019 - 19:26
Mynd: EPA-EFE / EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, lofar að uppfylla kosningaloforð sitt um Brexit eftir gott gengi í þingkosningum í gær. Fara þarf áratugi aftur í tímann til að finna viðlíka velgengni Íhaldsflokksins í kosningum.

Í morgun vöknuðu Bretar upp við fréttir af stórsigri Íhaldsflokksins og þingmeirihluta sem flokkurinn hefur ekki notið síðan á tímum Margaret Thatcher á 9. áratugnum. Það mátti þegar greina sigurlíkur í fylgiskönnunum en sigurinn var mun meiri en jafnvel bjartsýnustu íhaldsmenn þorðu að vona. 

Bæði flokksleiðtoginn, Boris Johnson forsætisráðherra og stefna Íhaldsflokksins, ekki síst í Brexit, höfðuðu greinilega til kjósenda. Sigurtónninn skilaði sér í morgunávarpi forsætisráðherra.

Verkamannaflokkurinn hafði hvorki leiðtoga sem náði til kjósenda né Brexit-stefnu sem dugði. Það vekur þó reiði margra að þó Jeremy Corbyn leiðtogi flokksins ætli að hætta, ætlar hann ekki að hætta strax.

Sterkur meirihluti einfaldar Brexit-glímuna en með fílefldum Skoskum þjóðarflokki munu Skotar vísast aftur vilja ræða sjálfstætt Skotland.

Í spilaranum hér að ofan má sjá samantekt úr sjónvarpsfréttum um þingkosningarnar í Bretlandi. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV
sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi