Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kosningar á Austurlandi verða ekki í apríl

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Fjögur sveitarfélög á Austur
Sveitarstjórnarkosningum í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi hefur verið frestað. Kosningarnar áttu að fara fram 18. apríl en vegna samkomubanns og óvissuástands í samfélaginu vegna kórónaveirufaraldursins og COVID-19 sjúkdómsins hefur þeim verið slegið á frest.

Sveitarstjórnirnar fjórar í Borgarfjarðarhreppi, Djúpavogshreppi, Fljótsdalshéraði og Seyðisfjarðarkaupstað hafa nú til umfjöllunar tillögu undirbúningsstjórnar um að kosningunum verði frestað um óákveðinn tíma. Síðar þurfa sveitarstjórnarráðherra og Alþingi að staðfesta frestunina.

Björn Ingimarsson, sveitarstjóri á Fljótsdalshéraði, gerir ráð fyrir að allar sveitarstjórnir samþykki þessa tillögu. „Ég á von á því að það verði, en síðan er það Alþingis að afgreiða, því það er ekki heimild í lögum til að fresta sveitarstjórnarkosningum.“

Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstaður hafa þegar samþykkt tillöguna. Bæjarstjórn Seyðisfjarðar kom saman á örstuttum fjarfundi í morgun þar sem þetta var eina málið á dagskrá.

Nýr kjördagur hefur þó ekki verið ákveðinn og Björn segist ekki sjá fyrir sér neina dagsetningu. Líklega verði þó reynt að hafa kosningar í haust.

„En það ræðst bara af því hvenær þessu ástandi lýkur. Þetta er náttúrlega fordæmalaust,“ segir Björn.

Nýr kjördagur hefur ekki verið ákveðinn en útlit er fyrir að ekki verði kosið fyrr en í haust. Þau utanfundaratkvæði sem hafa verið greidd verða líklega þurrkuð út vegna frestunarinnar.

Aðeins tæpur mánuður er í áður fyrirhugaðan kjördag og nú þegar hafa borist utankjörfundaratkvæði. Þau atkvæði sem búið er að greiða falla úr gildi ef Alþingi samþykkir að fresta kosningunum.

„Þessari kosningu er bara aflýst og þegar menn hafa komið sér saman um nýjan kjördag þá bara hefst ferlið að nýju,“ segir Björn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

 

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV