Kosning: Hver er bjartasta vonin 2018?

Mynd með færslu
 Mynd: ÍSTÓN - RÚV

Kosning: Hver er bjartasta vonin 2018?

23.02.2018 - 10:30

Höfundar

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu miðvikudaginn 14. mars. Rás 2 hefur tilnefnt fimm flytjendur til verðlaunanna Bjartasta vonin, en þeir eru: Between Mountains, Birgir, Birnir, GDRN og Hatari.

Between Mountains

Tvær sextán og sautján ára stelpur frá Vestfjörðum skipa Between Mountains, þær Katla Vigdís Vernharðsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir. Þær vöktu fyrst athygli á síðasta ári þegar þær sigruðu í Músíktilraunum og hafa komið víða fram síðan. Sveitin vakti m.a. áhuga David Fricke, blaðamanns Rolling Stone á Iceland Airwaves í haust, en hann nefndi sveitina eina af þeim áhugaverðustu á hátíðinni.


Birgir

Söngvarinn og lagasmiðurinn Birgir Steinn Stefánsson sendi frá sér sína fyrstu EP-plötu snemma á síðasta ári, en hún innihélt m.a. lögin „Last For Long“ og „With You“. Í ágúst gaf Birgir út lagið „Can You Feel It“ sem hefur heldur betur slegið í gegn. Lagið fór alla leið í toppsæti Vinsældalista Rásar 2 og hefur verið spilað tæplega sjö milljón sinnum á Spotify.


Birnir

Rapparinn Birnir skaust fram á sjónarsviðið á síðasta ári sem einn heitasti ungi rapparinn í fjölmennri og frjórri senu þar sem samkeppnin er gríðarhörð. Birnir vakti mikla athygli með sínu fyrsta lagi, „Á sama tíma“ og eftir hafa fylgt „Ekki Switcha“, „Út í geim,“ og „Já ég veit“, en það síðastnefnda hefur verið spilað rúmlega milljón sinnum á Spotify.


GDRN

GDRN er nafnið á tónlistarverkefni Guðrúnar Ýr Eyfjörð sem hóf starfsemi sína árið 2015. GDRN gaf út sitt fyrsta lag, „Ein“, fyrir um ári síðan og gerði í kjölfarið plötusamning við Öldu  Music. Lagið „Það sem var“ kom út í haust og vinnur GDRN nú að sinni fyrstu EP-plötu.


Hatari

Hljómsveitin Hatari hefur vakið athygli fyrir ögrandi og metnaðarfulla framkomu og tónlist sem lýsa mætti sem pönkuðu heimsendarafpoppi. Fyrsta EP-plata Hatara heitir Neysluvara og kom út í haust. Sveitina skipa Klemens Hannigan, Matthías Tryggvi Haraldsson og Einar Stefánsson og að þeirra sögn er Hatari margmiðlunarverk frekar en eiginleg hljómsveit.