Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Kosið í síðasta lagi 27. október

11.04.2016 - 13:08
Chairman of the Independence Party Bjarni Benediktsson casts his ballot Saturday April 27, 2013, as Icelanders vote in a General Election.  According to polls the parliamentary election could return to power the center-right parties that led the country
 Mynd: AP Photo/Brynjar Gauti
Ekki liggur fyrir hvenær þingkosningar verða í haust en líklegast er að þær verði í september eða fyrri hluta október.

Leiðtogar stjórnarflokkanna hafa ekki gefið upp hvenær boðað verður til þingkosninga og vilja láta það ráðast af framgangi mála. Eitt og annað hefur þó komið fram sem gefur vísbendingar og nota má til að áætla hvenær kosningar fara fram. Stærstu vísbendinguna gaf Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, þegar hann sagði að kjörtímabilið yrði stytt um eitt löggjafarþing. Það þing hefði átt að koma saman 13. september næstkomandi. Löggjafarþingið sem nú starfar getur starfað þangað til en forsetakosningarn í lok júní og ákvæði í þingskaparlögum um sumarhlé Alþingis setja þó strik í reikninginn. Þannig gæti Alþingi tekið hlé í júní, júlí og til tíunda ágúst.

Fjárlagafrumvarp flækir málin

Bjarni Benediktsson hefur líka gefið í skyn að frumvarp til fjárlaga næsta árs verði jafnvel kynnt fyrir kosningar. Fjárlagafrumvarp er alltaf lagt fram á fyrsta starfsdegi nýs löggjafarþings í september en að því hefur þá verið unnið mánuðum saman. Að þessu sinni verður að kynna frumvarpið áður en næsta þing hefði átt að koma saman, til dæmis í lok ágúst eða byrjun september. Það hefur enga þýðingu að leggja frumvarpið fram á þingi því eftir kosningar tekur við nýtt löggjafarþing og þingmálin lifa ekki milli þinga.

Kosið í síðasta lagi 27. október

Samkvæmt stjórnarskránni verða kosningar að fara fram innan 45 daga frá þingrofi. Verði þing rofið eins seint og hægt er, 12. september verður kosið í síðasta lagi 27. október eða 22. október ef haldið veður í þá hefð að kjósa á laugardögum. Líklegast er þó að þing verði rofið fyrr og kosið verði í september eða fyrri hluta október.

Heiðar Örn Sigurfinnsson
Fréttastofa RÚV