Kórónaveirusmitum fjölgar hratt út um landið

19.03.2020 - 13:36
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS
Kórónaveirusmitum fjölgar nú hratt út um landið. Fimmti hver íbúi í Húnaþingi vestra er í sóttkví og mjög erfitt ástand er á Hvammstanga. 133 eru í sóttkví í Vestmannaeyjum, bæjarstjórinn þar á meðal.

Allir nemendur og starfsmenn Grunnskólans á Hammstanga fóru í sóttkví eftir að starfsmaður þar greindist með Covid-19 smit. Nú eru alls 230 í sóttkví í Húnaþingi vestra.

Íbúar 130 heimila komast ekki í búð

Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri, segir ástandið mjög erfitt. Sveitarfélagið hafi þurft að skerða þjónustu og loka nær öllum stofnunum. Þá hafi þetta til dæmis mikil áhrif á verslun Kaupfélags Húnvetninga á Hvammstanga. „Það segir sig sjálft þegar 130 heimili eru í sóttkví, þá komast þau ekki í búðina og þá er mikið álag á pöntunarþjónustu í kaupfélaginu. Og við þurfum að aðstoða, taka höndum saman og versla fyrir þá sem eru í sóttkví, til þess að vernda starfsfólkið þar og hjálpa því.“  

Vill verja grunnþjónustu sveitarfélagsins

Og hún segir þetta reyna mjög á samtakamáttinn í samfélaginu. „Við bara leggjum okkur fram við að láta þetta ganga. Núna er markmiðið mitt dálítið mikið að vernda starfsfólk sveitarfélagsins sem sinnir grunnþjónustu. Það eru mjög margir þjónustuþættir hjá sveitarfélaginu sem mega bara ekki detta út.“ Það vor tekin fleiri sýni úr fólki í Húnaþingi vestra í gær sem verið er að rannsaka. Ragnheiður Jóna segir það koma í ljós síðar í dag hvort fleiri séu smiðtaðir þar af Covid-19.

Á þriðja hundrað grunnskólanemar í Hveragerði í sótthví

En það erfitt ástand á fleiri stöðum úti um land. Nærri 270 eru í sóttkví í Hveragerðisbæ, langflestir þeirra nemendur og starfsfólk Grunnskólans í Hvergerði. Þar fellur skólahald niður til 23. mars og þá eru bæjarskrifstofur Hveragerðisbæjar lokaðar. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, segir að íbúarnir séu mjög meðvitaðir um ástandið. Fólk fari varlega og fylgi öllum leiðbeiningum og sé sem minnst á ferðinni.

Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum í sóttkví

133 eru í sóttkví í Vestmannaeyjum. Þar hafa sjö Covid-19 smit verið greind. Starfsmaður á leikskólanum Sóla er á meðal smitaðra og er leikskólinn lokaður og 55 í sóttkví, starfsmenn og börn. Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri, sem er sjálf í sóttkví, segir þetta hafa gríðarlega mikil áhrif í bænum, bæði á íbúa, heimili og atvinnulíf. Það er skertur opnunartími á bæjarskrifstofunum og hjá öllum stofnunum bæjarins. 

Engin smit á Vesturlandi, Vestfjörðum eða Austurlandi

Á covid.is kemur fram að 39 smit hafa greinst utan höfuðborgarsvæðisins. 24 á Suðurlandi og 12 á Suðurnesjum, smitið á Hvammstanga er enn það eina á Norðurlandi vestra, en á Norðurlandi eystra hefur eitt smit greinst til viðbótar við það sem greindist á Akureyri í síðustu viku. Ekkert smit hefur komið upp á Vesturlandi, Vestfjörðum eða Austurlandi.

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi