Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Kórónaveiran dreifist hraðar

26.01.2020 - 12:12
epa08153562 Patients queue up to seek treatment in Wuhan Tongji Hospital Fever Clinic, in Wuhan City, Hubei Province, China, 22 January 2020 (issued 23 January 2020). The outbreak of coronavirus has so far claimed 17 lives and infected more than 550 others, according to media reports. Authorities in Wuhan announced on 23 January, a complete travel ban on residents of Wuhan in an effort to contain the spread of the virus.  EPA-EFE/STRINGER CHINA OUT
Fólk á heilsugæslustöð í Wuhan. Mynd: EPA-EFE - EPA
Krónónaveiran virðist dreifast hraðar en áður, segir heilbrigðisráðherra Kína. Íslendingur í Peking segir fólk grípa mikið til fyrirbyggjandi aðgerða - til dæmis séu sótthreinsivökvi og grímur að klárast í búðum.

Fimmtíu og sex hafa nú látist af völdum kórónaveirunnar í Kína og næstum því tvö þúsund hafa smitast í alls þrettán löndum. Tilkynnt var um fyrsta tilfellið í Kanada í gærkvöld.

Stjórnvöld í Kína eru uggandi um framhaldið. Ma Xiaowei, heilbrigðisráðherra Kína, segir að svo virðist sem veiran geti breist hraðar út en áður, og það setji meiri pressu á fólk og yfirvöld að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Hann sagði jafnframt að fólk sem beri veiruna en sýni ekki einkenni geti samt smitað annað fólk.

Snorri Sigurðsson, sem býr í Peking og starfar þar fyrir danska mjólkurframleiðslufyrirtæki Arla, segir fólk gríða töluvert til fyrirbyggjandi aðgerða. „Fólk býr sig betur, ver sig með grímum og við gerum það líka að sjálfsögðu. Við fórum í tvo stórmarkaði í dag og það er allt orðið uppselt af spritti og handhreinslibúnaði og grímum. Það er því greinilegt að fólk er að taka þetta mjög alvarlega og það er bara hið besta mál.“

Snorri segir tilkynningar yfirvalda benda til að veiran leggist aðallega á sem eru með veikt ónæmiskerfi eða undirliggjandi sjúkdóma. „Við höfum verið vöruð við því að fara á staði þar sem er fjöldi fólks og hugsa um hvað maður gerir - ekki vera að snerta á sér andlitið að óþörfu ef maður hefur verið einhvers staðar á stað þar sem er möguleiki að ná í einhverjar bakteríur eða sýkla - og í þessu tilviki vírus. Og það eru allir mjög meðvitaðir um þetta.“

Bandarísk yfirvöld hafa ákveðið að senda leiguflug til Wuan á þriðjudag til að ná í starfsmenn ræðismannsskrifstofunnar þar. Öðrum Bandaríkjamönnum í Wuhan býðst að fá að fara með. Um þúsund Bandaríkjamenn dvelja í Wuhan en flugvélin tekur 230 farþega. Frakkar og Japanar ætla að grípa til svipaðra ráðstafana.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV