Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Körfuknattleikssambandið brýtur reglur EES

Mynd með færslu
KKÍ gæti komist hjá frekari málalengingum með því að láta kvótann bara gilda um leikmenn sem eru með ríkisborgararétt í löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins. Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski - RÚV

Körfuknattleikssambandið brýtur reglur EES

22.06.2017 - 14:30
Reglugerð Körfuknattleikssambands Íslands um körfuknattleiksmót brýtur í bága við reglur evrópska efnahagssvæðisins. Þetta kemur fram í formlegri tilkynningu ESA, eftirlitsstofnunar EFTA. Íslenskum stjórnvöldum eru gefnir þrír mánuðir til að skila inn athugasemdum í málinu. Eftirlitsstofnunin telur að með því að reglur KKÍ heimili aðeins einum erlendum leikmanni í sérhverju liði að vera inni á vellinum í leik í einu, sé leikmönnum mismunað.

Fréttastofa hafði samband við Pétur Dam Leifsson, sérfræðing í Evrópurétti. Pétur segir greinilegt að málið sé liður í höfðun samningsbrotamáls af hálfu ESA. „Hið ætlaða brot gegn EES-samningnum virðist snúast um það að íslensku reglurnar gera þannig engan greinarmun á EES-borgurum og öðrum útlendingum og mismuna þannig leikmönnum/EES borgurum á EES-svæðinu (þ.e. hér leikmönnum frá öðrum EES-ríkjum gagnvart Íslendingum)," segir Pétur í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu. Íslensk stjórnvöld geti leyst málið með því að láta sömu reglur gilda um borgara annarra EES-ríkja og um Íslendinga en áfram er hægt að hafa slíkan kvóta um borgara annarra ríkja, til dæmis Bandaríkjamenn.

Kvörtun barst síðastliðið haust
Í tilkynningunni kemur fram að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, hafi borist kvörtun 30. ágúst 2016 en ekki kemur fram hver sendi hana inn. Sá eða sú sem kvartar telur að reglugerð KKÍ fari í bága við frjálst flæði vinnandi fólks. Í reglugerðinni komi fram að inni á vellinum í leik, megi aðeins vera einn erlendur leikmaður á hverja fjóra leikmenn sem hafa íslenskan ríkisborgararétt eða varanlegan búseturétt. Íslensk stjórnvöld voru látin vita af málinu í september í fyrra.

Megi líkja málinu við Icesave
Það næsta sem gerist í málinu er að eftirlitsstofnunin fer yfir athugasemdir og rök íslenskra stjórnvalda þegar þau berast. ESA getur þá fallist á rök Íslands og látið málið niður falla eða gefið frá sér svonefnt rökstutt álit. Það er síðan almennt grundvöllur að málsókn ESA gegn viðkomandi ríki fyrir EFTA-dómstólnum í samningsbrotamáli. Pétur segir að líkja megi málinu við Icesave því þar sé í raun sama tegund máls á sviði EES-réttar.