Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Konurnar sem kjósa að vera heima óháð öllum farsóttum

25.03.2020 - 11:48
Mynd: pixabay / pixabay
Nú á tímum COVID-19 vinna margir heima, en áður en kórónaveiran fór að valda usla í Evrópu var hópur sem kaus helst að vinna heima, ekki við tölvu með fjarfundabúnað heldur við þrif, uppeldi og eldamennsku. Myllumerkið #Tradwives hefur átt vaxandi fylgi að fagna á samfélagsmiðlum. Í Bretlandi og Bandaríkjunum hefur sprottið upp hreyfing kvenna sem vill hverfa aftur til óræðs tíma þar sem konur voru heimavinnandi og karlar fyrirvinnur

Telja hæfileikum sínum sóað á vinnumarkaði

Þessar konur berjast fyrir því að fá að velja hlutverk hinnar undirgefnu húsmóður án þess að sæta gagnrýni og þær segja hæfileikum kvenna sóað á vinnumarkaði. Konur eigi ekki að reyna að vera karlar. Hreyfingin hefur vakið umræður um stöðu kvenna í nútímasamfélagi og rétt þeirra til að haga lífi sínu eftir eigin höfði en hún hefur líka verið gagnrýnd, verið sögð ófeminísk, jafnvel rasísk. 

Dekraðu við  hann eins og tíðkaðist árið 1959

Alena Kate Pettitt er ein af þessum konum og andlit hreyfingarinnar í Bretlandi. Hún heldur úti bloggsíðunni The Darling Academy þar sem hún skrifar um heimilishald, breska kurteisissiði, hefðbundin gildi og mikilvægi þess að setja eiginmanninn í fyrsta sæti, eigi hjónabandið að blómstra. Spilltu honum og dekraðu við hann, eins og tíðkaðist árið 1959, ráðleggur hún konum sem vilja feta sömu slóð. 

Pettitt býður gestum upp á heimagert appelsínumarmelaði og eldar heitan mat frá grunni á hverjum degi. Hún sinnir börnunum af alúð en eiginmaðurinn er samt alltaf í fyrsta sæti. Sjálf hefur hún aldrei verið hamingjusamari að eigin sögn. 

Heimilisstörfin byrði á móður hennar

Pettitt ólst upp hjá einstæðri, útivinnandi móður. Hún segir heimilisstörfin alltaf hafa verið byrði á móður sinni. Sjálf hafi hún ung áttað sig á því að hún vildi annars konar líf. 

Sem barn og unglingur upplifði hún sig utangarðs, skilaboðin frá samfélaginu rímuðu illa við drauma hennar. Stelpur áttu að hennar mati að keppa við strákana, verða framakonur og brjóta glerþakið en hún þráði alltaf að verða húsmóðir og móðir, það var svarið sem hún gaf þegar kennarinn spurði börnin í bekknum hvað þau ætluðu að verða þegar þau yrði stór. Í stað þess að horfa á Beðmál í borginni og annað sjónvarpsefni um líf sjálfstæðra kvenna gleymdi Pettitt sér yfir sjónvarpsseríum frá sjötta áratugnum sem sýndu konur í hefðbundnum hlutverkum. 

Kristin DAVIS, Cynthia NIXON, Sarah Jessica PARKER, Kim CATRALL
 Mynd: HBO
Framakonurnar í Beðmálum í borginni og tilfinningaflækjur þeirra höfðuðu ekki til Pettitt.

Byltingin hófst þegar hún hitti eiginmanninn

Pettitt fannst hún ekki geta verið hún sjálf. Hún segist haf prófað framakonulífið. Hún flutti til London eftir tvítugt, vann langa daga og stóð á eigin fótum en það var ekki henni að skapi. Allt breyttist þegar hún hitti eiginmann sinn sem líka aðhyllist svokölluð hefðbundin gildi. Hann var tilbúinn til þess að sjá fyrir henni svo hún gæti séð um hann og heimilið. Þarna hófst byltingin, eins og Pettitt orðar það í samtali við breska ríkisútvarpið, BBC. 

Margar konur langi að helga sig heimilinu

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Húsmóðurímynd sjötta áratugarins.

Pettitt kom úr felum og þegar hún fór að blogga og birta myndbönd þar sem hún útskýrði lífstílinn og hvernig henni leið komst hún að því að margar konur voru sama sinnis. Síðastliðin ár hafa sprottið upp sambærilegar bloggsíður og hópar á samfélagsmiðlum þar sem konur tala um löngun sína til þess að helga sig heimilinu og myllumerkið Tradwives hefur verið notað, stundum í hálfkæringi með myndum af heimabökuðu bakkelsi eða skúringarfötu, stundum af mikilli alvöru. Já og svo auðvitað af þeim sem gagnrýna þessa hreyfingu, segja hana rasíska eða andfeminíska. 

Brá þegar hún áttaði sig á tengslunum við þriðja ríkið

Hugtakið Tradwive hefur sterk tengsl við þjóðernissinnuð stjórnmálaöfl yst til hægri svo sem alt-right hreyfinguna í Bandaríkjunum. Öfl sem tala fyrir hefðbundnum kynhlutverkum, því að konur séu heima við, undirgefnar eiginmönnum sínum og ali þeim mörg börn. Pettitt segist hafa verið brugðið þegar hún heyrði að hún héldi á lofti sömu kvenímynd og gert var hátt undir höfði í Þriðja ríkinu. Henni svíður það að fólk tengi hreyfingu hinna hefðbundnu húsmæðra við rasisma og nýnasisma. 

Það er þó ekki hægt að neita því að draumar Pettitt og sjálfsmynd falla vel að hugmyndum hreyfinga yst til hægri og þeirra sem telja fólk sem er hvítt á hörund æðra öðru. Á hárasískri stefnumótavefsíðu sem sögð er fyrir hvítt, fallegt fólk sem aðhyllist meint hefðbundin gildi, kveður þannig við svipaðan tón og í bloggi Pettitt. Það er konunnar að vera heima. Það er samt ekki hægt að halda því fram að hugmyndafræðin sé afurð nýnasisma eða rasisma og það eru ekki bara hvítar konur sem aðhyllast hana. Konur af ýmsum uppruna virðast finna sig í henni þó hugmyndafræðin sé líklega langt frá meginstraumnum. 

Horfir til þess þegar útidyrnar voru ólæstar

Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia
Pettitt hefur enska siði í hávegi.

Pettitt upphefur ekki bara kynhlutverk fortíðar, rétt eins og þjóðernishreyfingarnar horfir hún til samfélags fortíðar full nostalgíu. Hún telur að á æskuárum sínum hafi samfélagið verið einfaldara og öruggara, fólk hafi þekkt nágranna sína og getað skilið útidyrnar eftir ólæstar. Nú séu tímarnir aðrir og sjálfsmynd bresku þjóðarinnar í uppnámi. Hún bindur vonir við að samfélagið verði aftur eins og áður.

Valdeflandi að vera húsmóðir

Eiginmaður Pettitt ólst líka upp hjá einstæðri móður og þeim fannst þau afskipt, fannst vinnan hafi dregið athygli mæðra þeirra frá uppeldinu. Petitt segist hitta margar konur sem séu í klípu, eigi erfitt með að samhæfa vinnu og einkalíf, henni finnst hún hafa komist aftur í tengsl við sína kvenlegu hlið, hún geri það sem hún naut þessa að gera þegar hún var barn.

Það sé misskilningur að hún sé undir hælnum á eiginmanni sínum,  þvert á móti sé valdeflandi að vera húsmóðir og hafna þeirri nútímahugmynd að það sé ómerkilegri kostur en að vinna úti. 

Takk fyrir buxurnar en...

Í fjölmiðlum hefur hinum hefðbundnu húsmæðrum og feministum oft verið stillt upp sem andstæðum. Pettitt segir femínista hafa gagnrýnt það að hlutverk hinnar hefðbundnu húsmóður sjötta áratugarins sé hafið upp til skýjanna. Þeim virðist finnast sem hennar val sé hættulegt, merki um bakslag. Að með því að fylgja hjartanu sé hún að vinna gegn þeim árangri sem hafi náðst í kvennabaráttunni. „Við þökkum femínistum fyrir buxurnar en málið er að við sjáum hlutina öðrum augum,“ skrifaði hefðbundin húsmóðir á Twitter, femínisti svaraði því til að þetta snerist ekki bara um buxurnar, heldur fjölda annarra réttinda og frelsi frá kúgun. Pettitt segir að þetta snúist um val, í raun hafi sá valkostur að vera heimavinnandi verið tekinn frá konum.

Mynd með færslu
 Mynd: pixabay
Kvöldverðarborð.

Sumir hafa bent á að það geti ekki allar konur valið að vera heimavinnandi, í raun hafi fæstar fjölskyldur efni á því að lifa af einum launum. 

Ekki bara bakslag heldur afsprengi tíðarandans

Í grein sem hugvísindamennirnir Catherine Rottenberg og Shani Orgad skrifuðu í vefritið The Conversation er varað við því að stilla konum sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna og konum sem vilja gerast hefðbundnar húsmæður upp á móti hverjum öðrum. Þessi nýja hreyfing sé ekki bara feminískt bakslag heldur afsprengi nútímans og ákveðin viðbrögð við þeirri óvissu sem einkennir tíðarandann. Svar við krísum okkar tíma. Val kvennanna sem gerast húsmæður virðist persónulegt en raunin sé sú að val fólks mótist alltaf og takmarkist af samfélagslegum, efnahagslegum og pólitískum þáttum. Kerfinu sem umlykur það. Rottenberg og Orgad benda á að húsmæðurnar sjálfskipuðu tali margar um það hvað þær voru orðnar þreyttar á álaginu, því að vinna fullan vinnudag og koma svo heim á seinni vaktina eins og bandaríski rithöfundurinn Arlie Hochschild orðaði það. það er talað um tvöfalda byrði kvenna í nútímasamfélagi því ábyrgð á heimilisstörfum og umönnun fjölskyldumeðlima hvílir enn í meiri mæli á herðum kvenna en karla. 

Leið til að ná stjórn á eigin lífi

Að mati greinarhöfundar Conversation er það álagið í nútímanum og skakkt jafnvægi milli vinnu og einkalífs sem leitt hafa til upprisu húsmóðurinnar. Þeir nefna líka að á tímum þar sem kynhlutverk eru flæðandi og síbreytileg sé það að hverfa aftur til þröngs ramma fortíðar leið sumra kvenna til að öðlast stjórn á eigin lífi. 

Framakonur í dulargervi?

Húsmæðurnar hefðbundnu lifa samt kannski ekki alveg eftir gildunum sem þær kenna sig við. Meðfram því að baka brauð, strauja skyrtur og kaupa inn fyrir þá upphæð sem eiginmaðurinn ráðstafar þeim mánaðarlega gefa þær út bækur, skrifa bloggfærslur og halda námskeið. Rottenberg og Orgad segja að þær séu í raun hluti af samfélagi nýfrjálshyggju og langra vinnudaga, samfélagi sem þær segist hafna. Þær séu frumkvöðlar og athafnakonur sem græði á því að kynna lífsstíl húsmæðranna.