Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Konur nota meiri þunglyndislyf en karlar

25.09.2014 - 18:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Mikill munur virðist vera á því hvernig þunglyndi karla og kvenna er meðhöndlað. Konur nota allt að 70% meira af þunglyndislyfjum en karlar.

Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem styðst við gögn úr  lyfjagagnagrunni Landlæknis. Sagt verður frá rannsókninni á Vísindaþingi Geðlæknafélags Íslands sem hefst á morgun. Könnuð var geðlyfjanotkun karla og kvenna á árunum 2004-2013 og hún borin saman við notkun á magalyfjum og bólgueyðandi lyfjum.

Niðurstöðurnar sýna að almennt nota konur 20-30 prósent meira af lyfjum en karlar.  „Það sem kom okkur kannski á óvart er það þetta hlutfall er mun hærra. Eins og fyrir þunglyndislyf, það eru 70%, sem sagt konur að nota 70% meira af þunglyndislyfjum en karlar,“ segir Bjarni Sigurðsson, lyfjafræðingur og doktorsnemi í læknadeild. „Karlar eru greinilega síður meðhöndlaðir við þunglyndi heldur en konur og það munar þetta miklu á meðan svona almennt eins og í geðrofslyfjunum, magalyfjunum og bólgueyðandi lyfjunum þá er þetta svona 20 til 30% munur en þarna er munurinn alveg upp í 70 prósent.“

8,7% íslenskra karla fengu þunglyndislyf árið 2004 og 14,2% kvenna. Geðlyfjanotkunin er síðan svipuð ár frá ári. Árið 2013 fengu 8,8% karla lyf við þunglyndi en 15,6% kvenna, og hefur kynjamunurinn því frekar aukist. „Ef við skoðum síðan algengi þunglyndis og nýjustu rannsóknir sem sameina þá bæði dæmigerð og ódæmigerð einkenni þunglyndis sýnir það að þar er enginn munur á milli kynja í algengi þunglyndis, en það er munur á meðhöndlun, alla vegana með lyfjum,“ segir Bjarni.