Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Konur hyggjast ganga út í dag

24.10.2016 - 06:32
Mynd með færslu
Tímasetning kvennafrídagsins hefur tekið mið af launaþróuninni. Miðað við þetta hefur áunnist hálftími á ellefu árum.  Mynd: RÚV
Miðað við launaþróun síðasta áratug eru 52 ár þar til konur fá sömu launakjör og karlar. Konur ætla því að ganga út af vinnustöðum um allt land klukkan 14:38 í dag og krefjast kjarajafnréttis strax. Útifundur verður á Austurvelli klukkan rúmlega þrjú. 

Árið 2005 var haldið upp á kvennafrídaginn í þriðja sinn og konur gengu út af vinnustað á þeirri mínútu þegar þær hættu að fá borgað fyrir störf sín miðað við laun karla. Þá gengu konur út klukkan 14:08. Árið 2010 gengu konur út klukkan 14:25. Nú verður gengið út klukkan 14:38. Á ellefu árum hefur hálftími bæst við eða tæplega þrjár mínútur á hverju ári. Með sama áframhaldi þarf því að bíða til ársins 2068 eftir að konur hafi sömu laun og sömu kjör og karlar.

Umfjöllun um kvennafrí í sjónvarpsfréttum í gær.
Mynd: RÚV / RÚV
Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur.

Guðrún Margrét Guðmundsdóttir mannfræðingur sagði í sjónvarpsfréttum í gær telja að baráttan fyrir launajafnrétti gengi svona hægt vegna þess að þetta sé svo stór hluti af menningunni og karlægum hugsunarhætti sem fólk gerði sér ekki grein fyrir. Hún sagði að réttara væri að kalla aðgerðina í dag verkfall frekar en kvennafrí. „Mér finnst að við ættum að strunsa út og ekkert að vera að tala við atvinnurekendur um það því þetta á að vera pönkaðgerð.“ 

Guðrún Margrét segir rétt að gera kröfu á nýja ríkisstjórn að laga þetta.  „Hver gæti mögulega verið á móti því?“

Ísafjarðarbær gefur hvorki frí né mælist til þess að konur leggi niður störf í dag en biður forstöðumenn og íbúa að vera viðbúna því að konur hverfi af vinnustöðum sínum síðdegis. Fréttablaðið fjallar um málið. Þar segir að í yfirlýsingu frá bænum komi fram að tilgangur dagsins sé ekki að fyrirtæki og stofnanir gefi frí heldur að konur leggi niður störf. Ísafjarðarbær hyggist ekki skerða laun þeirra sem kjósi að ganga út í dag. 
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV