Konur ekki færri á þingi frá árinu 2007

29.10.2017 - 11:01
Frá þingsetningu 6. desember 2016.
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Konum fækkar á þingi um sex eftir kosningarnar í gær og hefur staða kvenna ekki verið lakari frá því eftir kosningarnar árið 2007. Hlutfallslega er staða kvenna sterkust í Framsóknarflokknum.

Hreyfing var á hlutfalli milli kynja innan tveggja flokka allt til klukkan níu í morgun. Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir datt út sem jöfnunarþingmaður Samfylkingarinnar á níunda tímanum en Björn Levý Gunnarsson kom inn fyrir Pírata. 

 

Píratar ná inn sex þingmönnum. Þar af eru fjórir karlar og tvær konur.  67 prósent karlar en 33 prósent konur. Samfylkingin fær sjö þingmenn; fjóra karla og þrjár konur. 57 prósent karlar og 43 prósent konur. Viðreisn er með jafnt hlutfall karla og kvenna í sínum fjögurra manna þingflokki. 

Í ellefu þingmanna þingflokki  Vinstri-græna verða sex konur og fimm karlar.  Þar er kynjahlutfallið 54,5 prósent konur en 45,5 prósent karlar.   

Mestur er kynjamunurinn í Miðflokknum, sem fékk sjö þingmenn. Þar eru sex karlar en ein kona. Hlutfall karla er 86 prósent karlar en kvenna 14 prósent.  Hjá Framsóknarflokki er hinsvegar hlutfall kvenna mest. Þar eru fimm konur í átta manna þingflokki en þrír karlar. Kynjahlutfallið er 62,5 prósent konur en 37,5 prósent karlar.

Sjálfstæðisflokkurinn er með sextán þingsæti, í þingflokknum verða tólf karlar og fjórar konur. Kynjahlutfallið er 75 prósent karlar en 25 prósent konur.

Flokkur fólksins er með þrjá karla í sínum þingflokki og eina konu.  Kynjahlutfallið er því 75 prósent karlar en 25 prósent konur.