Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Konur aðeins 11% forstjóra

23.01.2018 - 12:24
kynjaskipting stjórnenda fyrirtækja
 Mynd: Capacent - RÚV
Það hallar á hlut kvenna í stöðum stjórnenda og sérfræðinga í flestum íslenskum fyrirtækjum. Mun fleiri konur en karlar hafa þó lokið háskólanámi síðustu ár. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Capacent. Forstjóri Kauphallarinnar segir ljóst að lög um kynjakvóta í stjórnum hafi ekki skilað konum í fleiri stjórnunar- og ábyrgðastöður.

Samkvæmt úttektinni fækkar konum eftir því sem hærra er farið í skipuriti fyrirtækja. Eins og staðan er í dag eru konur aðeins 11 prósent forstjóra en karlar 89 prósent. Þá eru konur 27 prósent framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja en karlar 73 prósent. Konur eru 42 prósent sérfræðinga en karlar 58 prósent.

Konur voru sextíu og sjö prósent útskrifaðra nemenda úr Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur í fyrra. Þórey Vilhjálmsdóttir, sérfræðingur hjá Capacent, segir að þó að tölurnar nái aðeins yfir eitt ár hafi þróunin lengi verið í þessa átt.

„Þetta er eiginlega alveg óásættanlegt. Sérstaklega vegna þess að við erum heimsmeistarar í jafnrétti samkvæmt World Economic Forum. Við eigum að vera fyrirmynd annarra þjóða en við erum alls ekki að standa okkur þarna. Og við erum ekki að nýta hæfileika kvenna til fulls, það er ljóst,“ segir Þórey.

Fyrir nokkrum árum voru sett lög um kynjakvóta í stjórnum. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir augljóst að lagasetningin hafi ekki skilað konum í fleiri stjórnunarstöður innan fyrirtækja. 

„Þetta er svona ekki að skila sér inn í áhrifastöður í fyrirtækjunum í þeim mæli sem maður hefði viljað sjá, í framkvæmdastjórnir, fleiri konur sem forstjóra og svo framvegis. Því miður,“ segir Páll.

Hann segir að jafnrétti komi ekki af sjálfu sér og að atvinnurekendur þurfi að bregðast við.

„Og mér finnst einfaldlega að það sé tími til kominn að fjárfestar setji jafnréttismálin mjög ofarlega á þennan lista sem þeir miða við þegar þeir fjárfesta í fyrirtækjum,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV