Konur á þingi hittast og ræða ummælin

29.11.2018 - 09:49
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Hópur kvenna á þingi ætlar að hittast í dag og ræða þau ummæli sem nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla um konur og samstarfsfólk sitt á bar í miðbæ Reykjavíkur. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, er ein þeirra sem farið var ófögrum orðum um í þeim umræðum. „Ég er bara nýbúin að sjá þessar fréttir og er kjaftstopp, allavega í bili. Mér finnst þessi ummæli dæma sig sjálf. Ég þarf ekki að setja mig í dómarasæti.“

Silja Dögg staðfesti við fréttastofu að nokkrar konur sem sitja á þingi ætli að hittast í dag og ræða ummæli sem féllu þegar Miðflokksfólkið Bergþór Ólason, Gunnar Bragi Sveinsson þingflokksformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður og Anna Kolbrún Árnadóttur sátu að drykkju með þeim Ólafi Ísleifssyni þingflokksformanni og Karli Gauta Hjaltasyni úr Flokki fólksins. Hún sagði óljóst hvort og þá hvað kæmi út úr þeim fundi þingkvennanna.

DV og Stundin fengu afrit af upptöku af samtali þingmannanna úr Miðflokki og Flokki fólksins og hófu birtingar frétta úr þeim í gær.