Konungsfjölskyldan sögð vonsvikin með Harry og Meghan

08.01.2020 - 22:42
epa08112883 (FILE) Britain's Prince Harry (R), the Duke of Sussex, and his wife Meghan (L), the Duchess of Sussex, attend a creative industries and business reception at the High Commissioner's residence in Johannesburg, South Africa, 02 October 2019 (reissued 08 January 2020). According to reports, Duke and Duchess of Sussex have announced in a statement that they will step back as 'senior' royal family members and work to become financially independent.  EPA-EFE/FACUNDO ARRIZABALAGA
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Harry Bretaprins og Meghan Markle, hertogaynjan af Sussex, leituðu ekki ráða hjá neinum í bresku konungsfjölskyldunni áður en þau opinberuðu það að þau hefðu ákveðið að segja sig frá embættisskyldum sínum innan bresku krúnunnar.

Þetta herma heimildir breska ríkisútvarpsins. Tíðindin komu mörgum í opna skjöldu í kvöld og talsmaður konungsfjölskyldunnar segir að vonbrigðin leyni sér ekki þar á bæ. Reynt sé að ræða við hjónin, en óljóst hverju það skilar.
„Það er skilningur á því að þau vilji feta aðra slóð, en þetta er flókið og mun taka tíma að komast á hreint,“ segir í tilkynningu frá bresku krúnunni. 

Fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi Buckingham-hallar, Dickie Arbiter, hefur borið tíðindin saman við það þegar Játvarður prins afsalaði sér krúnunni fyrir ástina árið 1936 til þess að geta verið með hinni bandarísku Wallis Simpson sem þá var tvífráskilin.

„Það er eina fordæmið, en ekkert þessu líkt hefur gerst á síðari árum,“ segir Arbiter. 

Þau Harry og Meghan sögðu í tilkynningu að ákvörðunin sé tekin að vandlega ígrunduðu máli. Þau telja að tími sé kominn að þau verði fjárhagslega sjálfstæð og ætla þau að verja tíma sínum jafnt milli Bretlands og Ameríku. Þau muni þó áfram styðja drottninguna, eins og það er orðað í yfirlýsingu þeirra hjóna.