Konum yfir fimmtugu fjölgar í hópi öryrkja

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Öryrkjum hefur fjölgað og eru konur yfir fimmtugu stærsti hluti fjölgunarinnar. Félagsfræðingur segir að skoða verði hvað það er í samfélagsgerðinni sem veldur örorku hjá konum. 

Örorkulífeyrisþegar fóru úr því að vera sjö prósent af mannfjölda á vinnualdri 2008 í sjö komma átta prósent í janúar síðastliðnum. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings. Fjölgun öryrkulífeyrisþega hægðist eftir 2005. Þá leiðir rannsóknin í ljós að fjölgun öryrkja verði ekki skýrð með tíðari örorku ungra karla. 

„Konur eru líklegri til þess að verða öryrkjar en karlar. Munurinn á körlum og konum eykst með aldri. Það bendir til þess að það sé eitthvað sem er ólíkt í lífshlaupi karla og kvenna sem skilar þessari niðurtöðu. Þá fáum við kannski ástæðu til þess að horfa á hluti eins og t.d. vinnumarkaðinn. Konur eru líklegri til þess að vinna umönnunarstörf sem eru andlega og líkamlega slítandi. Þær eru líklegri til þess að vera einstæðir foreldrar sem leiðir til fátæktar. Þær eru líklegri til þess að verða fyrir kynbundnu ofbeldi. Þær bera þungann af heimilishaldi og umönnun barna og búa þannig við aukið álag. Þetta eru þættir sem hægt er að hafa áhrif á með stefnumótun. Þættir sem eru að gerast í hversdagslegu lífi fólks. Áður en fólk er komið á þann stað að það er komið með skerta starfsgetu þá eru atburðir eða langvarandi ástand sem veldur því að það missir starfsgetuna,“ segir Kolbeinn H. Stefánsson félagsfræðingur. 

„Fjölgun örorkulífeyrisþega á milli 2008 og 2019 er því ekki tilkomin vegna ungs fólks og þaðan af síður til ungra karla heldur verður hún fyrst og fremst rakin til kvenna á og yfir miðjum aldri,“ segir í skýrslunni.

Þá kemur fram að geðraskanir eru fjölmennasti flokkur greininga til grundvallar 75% örorku- og endurhæfingarmats. „Á tímabilinu 2000-2008 var fjölgunin mest í greiningum á grundvelli stoðkerfisvandamála og áverka en frá 2008-2018 var fjölgunin mest í greiningum á geðröskunum og „öðrum ástæðum“,“ segir í skýrslu Kolbeins.

Einnir kemur fram að drengir geta vænst þess að eiga 71 og hálft gott æviár en stúlkur aðeins 66,2.

„Í kjölfar hrunsins fækkaði þeim árum sem bæði kynin gátu vænst þess að njóta góðrar heilsu en eftir 2009 fór árunum að fjölga sem karlar gátu vænst að búa við góða heilsu en hélt áfram að fækka fyrir konur. Það virðist því að endurreisnin í kjölfar hrunsins hafi haft mjög ólíkar afleiðingar fyrir kynin, a.m.k. hvað varðar heilsu,“ segir í skýrslunni.

Því spáð að öryrkjum fjölgi úr því að vera 7,8% af mannfjölda í 8,1% árið 2030.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi