Konu hrint fram af svölum í Breiðholti

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Konu var hrint fram af svölum í Hólahverfi í Breiðholti í kvöld. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var kona var flutt á slysadeild og karlmaður var handtekinn í Hólahverfinu í kvöld.

Þetta kemur fram á vef Fréttablaðsins. Þar segir að lögregla hafi ekki viljað tjá sig frekar um málið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins féll konan fram af svölum á annarri hæð hússins. Þrír lögreglubílar hafi mætt á staðinn. Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu staðfestir í samtali við fréttastofu að tveir sjúkrabílar hafi verið sendir á vettvang. Ekkert er vitað um líðan konunnar að svo stöddu. 

Ekki náðist í lögreglu við gerð fréttar. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

Frétt uppfærð klukkan 06:30. Í fyrri útgáfu kom fram að konan hefði fallið fram af svölum. Inngangi fréttarinnar og fyrirsögn hefur verið breytt til samræmis við upplýsingar frá lögreglu.
Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að konu hafi verið hrint fram af svölum í efra Breiðholti rétt fyrir klukkan níu í gærkvöld. Að sögn lögreglu var konan flutt alvarlega slösuð á sjúkrahús. Fréttablaðið greindi fyrst frá og segir að atvikið hafi gerst í Hólahverfi og að konunni hafi verið hrint fram af annarri hæð. Í tilkynningu frá lögreglu kemur fram að sá sem hrinti konunni hafi verið handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu. Málið er í rannsókn. 
 

Katrín Ásmundsdóttir