Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Konfúsíusarstofnanir sakaðar um áróður

07.01.2015 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Stokkhólmsháskóli hefur lokað stofnun Kínverja við háskólann svokallaðri Konfúsíusarstofnun. Hundruð slíkra stofnanna sem kínversk stjórnvöld hafa stofnað við háskóla víða um heim hafa sætt harðri gagnrýni fyrir að vera áróðurstæki kínverska kommúnistaflokksins.

Konfúsíusstofnunin við Stokkhólmsháskóla  sem nú hefur verið lokað var stofnuð 2005 var sú fyrsta sem stofnuð var við háskóla í Evrópu. Slík stofnun var stofnuð við Háskóla Íslands 2008 þar sem boðið er upp á BA nám ásamt því að kynna kínverska menningu. Auk vikulegra kvikmyndasýninga býður stofnunin upp á fyrirlestra sem haldnir eru reglulega. Þetta var ólíkt því sem gerðist í Osló og Kaupmannahöfn þar sem háskólar afþökkuðu slíkar stofnanir.  

Gagnrýnt er að þessar stofnanir hamli frjálsri hugsun og lýðræðisumræðu. Alræðisstjórn kínverskra kommúnista sé heimilað að stunda kennslu í erlendum háskólum og stýra umræðu um Kína undir því yfirskyni að efla þekkingu í kínversku og skilning í kínverski menningu. Nú eru 465 slíkar stofnanir við háksóla í 123 löndum og hundruð svokallaðra Konfúsíus kennslustofur víða um heim. Þar sem stjórnvöld í Kína borga helming kostnaðar , leggja jafnvel til kennara og námsbækur.

Kínversk stjórnvöld beita ritskoðun á umfjöllunarefni Konfúsíusarstofnanna ekki má þar ræða um andófsmenn, baráttumenn fyrir lýðræði í Kína, mannréttindi í Kína, hernám Tíbet sjálfstæði Taiwan og sjálfstæðisbaráttu í Xinjiang,  né fjöldamorðin á torgi hins himneska friðar í Peking 1989, þegar kínverski herinn myrti þúsundir lýðræðissinnaðra stúdenta. Margir háskólar í Kanada og Bandaríkjunum hafa hætt þessari háskólasamvinnu við kínversk stjórnvöld  nú síðast Chicago háskóli. Samtök kanadískra og  bandarískra háskóla prófessora og kennara hafa krafist þess að allri háskólasamvinnu við Konfúsíusstofnanir verði hætt.