Heiða Jóhannsdóttir skirfar:
„Ef enginn segir neitt, þá breytist ekkert“, er slagorðið sem kynnir Héraðið, nýjustu mynd kvikmyndaleikstjórans Gríms Hákonarsonar um kúabóndann Ingu, sem rekur mjólkurbú með Reyni eiginmanni sínum. Jörðin þeirra hjóna, Dalsmynni í Erpsfirði, hefur verið í eigu fjölskyldu Reynis, og hann er bundinn henni sterkum átthagaböndum. Síðustu árin hafa þó orðið þeim þung í skauti. Þau hafa fjárfest í vélvæðingu mjólkurbúsins, en þrátt fyrir sleitulausa vinnu ná þau ekki að halda í við skuldirnar sem stökkbreyttust í efnahagshruninu. Reynir hefur bætt á sig aukavinnu sem vörubílstjóri, meðan Inga sinnir fjósinu, en uppkomin börnin eru flutt suður. Hjónin eru í mikilli skuld við Kaupfélag Erpsfirðinga sem er allt í öllu í hagkerfinu í héraðinu – það er lánveitandi, söluaðili aðfanga og kaupandi afurðanna. Þegar Inga stingur upp á því við Reyni að þau kaupi áburð af öðrum á mun hagstæðara verði, fer eiginmaðurinn undan flæmingi – svoleiðislagað má ekki í sveitinni – þeir sem sniðganga Kaupfélagið eru sjálfir sniðgengnir af Kaupfélaginu. Þau hjónin eru í svipaðri stöðu og flestir bændur í sveitinni, en enginn hefur orð á því af ótta við útskúfun.