Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Komst fyrst á séns á Siglufirði

Mynd: RÚV / Siglufjörður – Saga af bæ

Komst fyrst á séns á Siglufirði

03.02.2020 - 13:30

Höfundar

„Fyrir mig þá voru þetta heillandi aðstæður, að vera með Manhattan-blett fullan af lífi á hjara veraldar,“ segir Hallgrímur Helgason um af hverju hann valdi Siglufjörð sem sögusvið síðustu skáldsögu sinnar, Sextíu kíló af sólskini, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin í hitteðfyrra.

Sextíu kíló af sólskini fjallar öðrum þræði um hvernig síldin kom með nútímann til Íslands upp úr aldamótunum 1900. Hallgrímur hyggst gefa út tvö bindi í viðbót þar sem hann heldur áfram sögunni af Gesti Eilífssyni og fólkinu í Segulfirði (nafnið á Siglufirði í bókinni) og segir það sé svo margt við staðinn sem heilli. Hann sé til dæmis einn af afskekktustu stöðum landsins og lengi vel hafi ekki verið bílfært þangað. „Þegar maður stendur á eyrinni og horfir út úr firðinum veit maður að það er ekkert fram undan nema Norðurpóllinn. Það gefur þessu hjara-veraldar-stemmingu sem er mjög fókuserandi.“ Þrátt fyrir það sé þarna eini staðurinn á Íslandi þar sem stórborgarlíf hafi myndast.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Siglufjörður – saga af bæ
Siglufjörður var byggður upp eftir eins konar rúðuneti.

„Þarna erum við með skipulag sem er eins og Manhattan, gert af séra Bjarna í upphafi 20. aldar; reitaskipulagið, fyrsta breiðgata, önnur og svo framvegis. Þarna á þessum litla bletti voru 10.000 manns í landlegu. Ótrúleg mannmergð og mikið líf, 23 knæpur, kvikmyndahús, bakarí, fatahreinsanir, ball á hverju einasta kvöldi, ekki bara um helgar.“ Þá segir Hallgrímur frá siglfirskri konu sem kom í fyrsta sinn til London á áttræðisaldri, „og gekk út á Oxford Street og sá alla mannmergðina og sagði: „Þetta er nú bara eins og á aðalgötunni heima í den“.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Siglufjörður – saga af bæ
Mikil líf var í bænum áður en síldin fór.

Hann segir suðupottinn sem þarna hafi myndast gjöfult efni fyrir rithöfund að skrifa um. „Manhattan-blettur fullur af lífi á hjara veraldar. Svo kannski spilar inn í að ég komst þarna fyrst á séns. Það var á landsmótinu 1975. Ég fór alltaf að keppa á skíðalandsmótum, það var ball á Hótel höfn og hljómsveitin Gautar lék fyrir dansi. Þetta var mjög heillandi menning, dálítið eins og í útlöndum, stelpurnar frá Akureyri voru svo sætar, það kannski gerði það svolítið fyrir mig svona persónulega.“

Egill Helgason ræddi við Hallgrím Helgason í fimmta og síðasta þætti af Siglufirði – sögu um bæ. Hægt er að horfa á hann í heild sinni sem og eldri þætti í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Mannskæðasta flugslys Íslands varð í Héðinsfirði 1947

Menningarefni

„Einn besti kynfræðsluskóli sem hefur verið stofnaður“

Bókmenntir

Tarzan var fastagestur á Siglufirði

Menningarefni

Skækjur, landshornafólk og ruslaralýður í síldinni