Kómískur kraftur á kostnað dramatísks kjarna

Mynd: Þjóðleikhúsið / Þjóðleikhúsið

Kómískur kraftur á kostnað dramatísks kjarna

24.09.2019 - 20:13

Höfundar

Leiksýningin Ör, eftir Auði Övu Ólafsdóttur, er virðingarverð tilraun til að takast á við erfiðleika hinnar hversdagslegu tilvistar mannsins, segir Karl Ágúst Þorbergsson gagnrýnandi.

Karl Ágúst Þorbergsson skrifar:

Verkið Ör (eða maðurinn er eina dýrið sem grætur) eftir Auði Övu Ólafsdóttur er tragíkómísk sýn á tilvistarkreppu miðaldra manns en fjallar um leið um möguleika manneskjunnar til að takast á við þjáningu sína og vinna úr þeim áföllum sem hún verður fyrir. Rétt er að taka það fram strax að leikritið Ör byggir ekki á samnefndri skáldsögu Auðar Övu heldur má segja að skáldsagan hafi sprottið upp úr uppkasti af leikritinu. Þó svo að líkindi séu með báðum verkum þá er rétt að tala um tvö aðskild listaverk, ekki aðeins vegna ólíkrar framvindu heldur einnig hvað varðar ólíka frásagnarmöguleika listformanna tveggja, skáldsögunnar og sviðsverksins.

Leikritið segir frá Jónasi Ebeneser, leiknum af Baldri Trausta Hreinssyni, og glímu hans við sjálfan sig eftir erfiðan skilnað. Í miðjum skilnaði kemst hann að því að hann er ekki blóðfaðir dóttur sinnar, Vatnalilju, leikinnar af Hildi Völu Baldursdóttur, og er það kjarni þeirrar sálarangistar sem plagar hann og hefur nánast ýtt honum fram af brúninni þar sem sjálfsmorð er orðið raunverulegur og nálægur möguleiki í hans huga. Nágranni Jónasar og vinur, Svanur, leikinn af Pálma Gestssyni, reynir af fremsta megni að laga vin sin en hylur um leið sína eigin innri líðan. Móðir Jónasar, Stella, leikin af Guðrúnu Gísladóttur, býr á elliheimilinu Grund og atast í syni sínum, á umhyggjusaman hátt þó, og reynir leynt og ljóst að koma honum saman við Maí, leikna af Birgittu Birgisdóttur, sem vinnur á hjúkrunarheimilinu.

Úr leiksýningunni Ör í Þjóðleikhúsinu 2019.
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Þungamiðja verksins hverfist um innri baráttu Jónasar og samskipti hans við Svan, móður sína og ekki síst Maí en það er í gegnum sögu hennar sem Jónas finnur leið út úr sínum vanda. Samband Jónasar við Vatnalilju einkennist af flótta þar sem hann reynir af fremsta megni að fela sársauka sinn þó svo að það sé deginum ljósara að Vatnalilja viti að eitthvað liggur þungt á föður hennar. Vert er að taka fram að Hildur Vala þreytir frumraun sína á sviði með leik sínum í sýningunni og óhætt að segja að hún takist á við hlutverk sitt hnökralaust.

Leiktexti Auðar Övu er í senn hversdagslegur og ljóðrænn. Verkið byggir ekki á neinni hetjusögu, hér eru venjulegar manneskjur að takast á við venjuleg vandamál, hver á sinn hátt. Vandamál Maí eru kannski einna mest framandi fyrir áhorfendum þar sem hún hefur upplifað hryllilegar afleiðingar stríðs. En í verkinu er upplifun hennar og áföll hluti af hennar sjálfi, hennar hversdegi, og er því vel miðlað í verkinu. Þó að verkið fjalli um dramatísk málefni er það alls ekki snautt húmor og auðvelt að flokka það sem einhvers konar tragíkómík. Ljóðrænan birtist áhorfendum einna helst í kjörnuðum tilsvörum eða hugleiðingum persónanna út í loftið en einnig í byggingu þess og senuskiptingum þar sem texti og tilsvör flæða á milli og breyta um merkingu í leiðinni. Það gæti hins vegar vel skrifast á leikstjónarlegar ákvarðanir en ekki texta Auðar.

Hin kómíska hlið verksins skín í gegn í samskiptum Jónasar við Svan og móður sína, Stellu, en aftur á móti er öllu alvarlegri tónn í sambandi Jónasar við Vatnalilju og ekki síst Maí. Ljóst er að þar horfist Jónas í augu við sína innri djöfla og getur ekki snúið sér undan eða hörfað á vit afskiptaleysis eins og tilfellið er í samskiptum hans við Svan og móður sína. Afstaða í leik endurspeglar þessa tragíkómik. Guðrún Gísladóttir og Pálmi Gestsson eru augljóslega í gamansömum hlutverkum á með Birgitta Birgisdóttir og Hildur Vala eru málsvarar dramatíkurinnar. Baldur Trausti flakkar síðan þarna á milli og mæðir mikið á honum á stundum þar sem ferðin frá farsakenndum yfirlýsingum um eðli kvenna milli Jónasar og Svans yfir í hugleiðingar um sjálfsmorð er ansi brött. Stundum tekst þar vel til, en oft virðist grínið taka yfir og dramatíkin fellur flöt. Ástæða þessa má þó mögulega finna í leikstjórnarlegri afstöðu til textans og sviðsrænni útfærslu á honum frekar en leiktúlkun.

Úr leiksýningunni Ör í Þjóðleikhúsinu 2019.
 Mynd: Þjóðleikhúsið

Leikstíllinn endurspeglar hinn hversdagslega og raunsæja tón leikritsins. Ljóðrænan kemur hins vegar fram í hugleiðingum persónanna um eigin líðan þar sem áhorfendur fá að skyggnast inn í innri baráttu persónanna, sérstaklega Jónasar þó. Þó að þessi aðferð gerir ljóðrænum texta Auðar kleift að skína í gegn styttir hún oft og tíðum leið áhorfandans að tilfinningalegri líðan persónanna, það er, tilfinningaleg líðan persónanna er orðuð beint út í stað þess að gefa áhorfandanum tækifæri á að upplifa hana í gegnum gjörðir, andrúmsloft og leik á sviðinu. Þannig má segja að tækifæri til að draga áhorfendur inn í innra líf persónanna glatist og að þeir eignist þar með hlutdeild í þeim. Þó að í verkinu séu vissulega góðir sprettir, sérstaklegar hvað varðar kómískan samleik Baldurs, Pálma og Guðrúnar, þá snertir þessi afstaða kjarna verksins, hinn knýjandi alvarleika innri þjáningar persónanna.

Verkið skortir því eilítið skýrari afstöðu heilt yfir. Óljóst er hvar áherslan í framvindunni liggur, hvort hún liggur í hinu smáa samhengi krísu Jónasar Ebenesers, hversdagslegum vandamálum, skilningsleysi á hugsunarhætti kvenna og föðuhlutverkinu eða í stærra samhengi þjáningar manneskjunnar, sammannlegrar tengingar eða skorts þar á, hvernig við tökumst á við og vinnu úr (mis)alvarlegum áföllum. Verkið flakkar þarna á milli og óljós afstaðan gerir það meðal annars að verkum að stórir vendipunktar fletjast út eða tengingu vantar á milli þeirra eins og til dæmis er tilfellið í uppgjöri Jónasar við sjálfan sig með aðstoð Maí eða þegar hann opnar sig við Vatnalilju um að hann sé ekki blóðfaðir hennar. Sams konar togstreita, milli miðlunar á líðan persóna og möguleika áhorfenda til að setja sig í spor þeirra, myndast til að mynda í tónlistarvali sýningarinnar. Þar eru oft og tíðum undirstrikaðar ákveðnar tilfinningar sem fram eru komnar eða þá að farin er styttri leið að tilfinningalegri upplifun áhorfenda eins og til dæmis í lokalagi sýningarinnar.

Í þessu samhengi mætti skoða betur samband undirtexta og leiktexta verksins. Eins og áður segir byggist verkið á mikilli innri baráttu og því sem ekki er sagt og gert. Þessi barátta býður upp á mikla spennu milli gjörða, orða og tilfinninga en oft og tíðum er skautað yfir þessa baráttu og undirtexti og innri barátta dregin upp á yfirborðið í orðuðum hugleiðingum persónanna um tilfinningar sínar og líðan. Leiða má að því líkum að aðstandendur sýningarinnar treysti á ljóðrænu leiktextans til að miðla upplifun og tilfinningum persónanna en að sama skapi eru möguleikar sviðslistamiðilsins til að tjá og túlka hið ósagða á myndrænan og ljóðrænan hátt vannýttir.

Sýningin Ör (eða maðurinn er eina dýrið sem grætur) er virðingarverð tilraun til að takast á við erfiðleika hinnar hversdagslegu tilvistar mannsins og þá þjáningu sem henni kann að fylgja. Styrkleikar sýningarinnar liggja í kómískum tóni verksins og því valdi sem leikhópurinn hefur á honum. En dramatískur kjarni verksins missir oft og tíðum marks þar sem undirtexti er dreginn upp á yfirborðið og farið er á mis við samlíðan áhorfenda.