Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Komast ekki heim fyrir jól

23.12.2010 - 18:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Litli drengurinn, sem fæddist á Indlandi fyrir rúmum mánuði og Alþingi veitti íslenskan ríkisborgararétt í síðustu viku, er enn vegabréfslaus og kemur ekki til Íslands fyrir jól. Íslenskur faðir drengsins er ósáttur við meðferð málsins hér á landi.

Íslensku hjónin, Einar Þór Færseth og Helga Sveinsdóttir, fengu indverska konu til að ganga með barn fyrir sig en staðgöngumæðrun er ólögleg á Íslandi. Allsherjarnefnd samþykkti um síðustu helgi að veita drengnum Jóel Færseth Einarssyni ríkisborgararétt. Lögin um ríkisborgararétt öðlast þó ekki gildi fyrr en tilkynning hefur birst í Lögbirtingarblaðinu og verður það líklega á milli jóla og nýárs.

Sú ráðstöfun dugar hins vegar ekki til því utanríkisráðuneytið sem leitaði samráðs dómsmálaráðuneytisins þarf að gefa út vegabréf fyrir drenginn. Það hefur ekki verið gert og í samtali við fréttastofu í dag sagðist Einar Þór Færseth, faðir drengsins, vera ósáttur við hvernig íslensk stjórnvöld hefðu tekið á máli hans. Hann segir skelfilegt að vera fastur með barnið á Indlandi en þar hafa hjónin verið síðan drengurinn fæddist.

Svo virðist sem útgáfa vegabréfs fyrir litla drenginn strandi helst á því að ekki liggi fyrir löglegir pappírar sem sýni hver fari með forræði hans. Indverska staðgöngumóðirin er gift og samkvæmt alþjóðlegum lögum telst eiginmaður hennar faðir barnsins þar til sýnt hafi verið fram á annað. Liðsinni indverskra stjórnvalda þurfi til að staðfesta það.

Engin reglugerð eða eftirlit er með staðgöngumæðrun á Indlandi og fjölmörg evrópsk pör eru í sömu aðstæðum og íslensku hjónin, komast ekki heim með börn sem indverskar staðgöngunmæður hafa fætt.