Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Koma ekki saman og hoppa í hring

Mynd:  / 

Koma ekki saman og hoppa í hring

28.08.2019 - 13:30

Höfundar

Hljómsveitin Valdimar var ein þeirra sem skemmti á Tónaflóði Rásar 2 á Menningarnótt við frábærar undirtektir. Í aðdraganda tónleikanna heimsótti Óli Palli hljómsveitina við æfingar og sögðust liðsmenn sveitarinnar ekki hafa uppi sérstaka siði í undirbúningi, eins og að hoppa í hring eða slíkt.

Hljómsveitin Valdimar gaf út sína fjórðu plötu á síðasta ári, Sitt sýnist hverjum, og hlaut hún lofsverða dóma hvarvetna. Þeir komu fram í fyrsta sinn á stórtónleikum Rásar 2 á Menningarnótt og nutu mikillar hylli við Arnarhól. „Án efa tilkomumesta verk Valdimars til þessa, og hugsanlega það besta,“ sagði Arnar Eggert Thoroddsen á Rás 2 um síðustu plötu sem hefur svo sannarlega fengið mikla hylli hjá hlustendum Rásar 2 sem og víðar. Ólafur Páll Gunnarsson í Popplandi fór og heimsótti hljómsveitina í Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem þeir undirbjuggu tónleikana og hituðu upp fyrir Tónaflóð á Menningarnótt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hljómsveitin Valdimar kom fram á Tónaflóði Rásar 2 í ár.

„Þetta verða fimm lög, okkur langaði að taka sex. Þetta er bara eins og gera upp á milli barnanna sinna,“ segir Valdimar Guðmundsson um framkomu þeirra á Tónaflóði. Hljómsveitin gaf Óla Palla forsmekkinn og tóku þrjú lög á sviði Bæjarbíós en undir venjulegum kringumstæðum hefðu þeir átt að spila lögin í Stúdíói 12 í Efstaleiti en ákveðið var að bregða út af vananum í þetta skiptið. Fyrsta lagið heitir Stimpla mig út og er af þeirri síðustu breiðskífu. „Þetta er svona um það að stimpla sig út. Þú finnur að það er komin utanaðkomandi pressa, maður þarf að standast einhverjar væntingar. Stundum er bara fínt að stimpla sig aðeins út. Bara gera það sem manni langar að gera,“ segir Valdimar.

Næsta plata kannski rappplata

Áður en talið er í annað lag drengjanna, Ryðgaður dans, spyr Óli drengina um fyrirmyndir hljómsveitarinnar Valdimars. „Við eigum alveg fullt af eftirlætishljómsveitum en það er engin svona ein sem við viljum hljóma eins og. Fyrst myndum við kannski nefna Radiohead sem stóra áhrifavalda, The National er önnur hljómsveit sem margir í bandinu fíla mjög mikið og svo er ég undir miklum áhrifum frá rappi líka,“ segir Valdimar og viðkennir að vera mikill unnandi rapptónlistar. „Við vorum næstum því í eitt sinn búnir að fá Blaz Roca til þess að koma fram á tónleikum og taka gestavers. Kannski næsta plata verði bara uppfull af gestaröppurum, ég syng svo viðlögin og strákarnir um undirspilið. Þá er bara búið að ákveða þetta,“ segir Valdimar og spyr Óli strax hvort nafn sé komið á skífuna. „Big papa Waldo,“ svarar Valdimar samstundis.

Mynd: RÚV / RÚV
Hljómsveitin Valdimar flutti meðal annars lag sitt Yfir borgina á Tónaflóði 2019.

 

Hvernig líður svo dagurinn áður en stigið er á svið? „Við förum alla vega í sándtékk um miðjan dag, svo fer hver fyrir sig í sína slökun. Kannski borðum við saman á undan, ekkert ákveðið en bara að hafa það næs,“ segir Valdimar og kveðst ekki hafa neina fasta punkta fyrir hverja tónleika. „Oftar en ekki förum við út að borða en við erum ekki með neitt svona ritúal, allir að hoppa í hring eða slíkt. Sem er reyndar erfitt að gera, að hoppa í hring,“ segir Valdimar.

Þriðja og síðasta lag hljómsveitarinnar Valdimars í upphitun sinni fyrir Tónaflóð er Yfir borgina. Óli Palli heimsótti drengina í Bæjarbíó og aðstoð við hljóðstjórn veitti Þórhallur Arnar Vilbergsson. Viðtalið og lögin þrjú má heyra í spilaranum hér efst í fréttinni.

 

Tengdar fréttir

Tónlist

Þau koma fram á Tónaflóði á Menningarnótt

Tónlist

Hjaltalín og Stjórnin á Tónaflóði Rásar 2