
Kom til landsins 22. febrúar - veiktist hér á landi
Þetta kom fram á blaðamannafundi sem lauk nú síðdegis. Þar sátu fyrir svörum Alma Möller, landlæknir, Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir frá Landspítalanum og Víðir Reynisson frá embætti ríkislögreglustjóra.
Tilkynnt var í dag að fyrsta tilfellið af COVID-19 veirunni hefði greinst hér á landi. Viðbúnaðarstig almannavarnavarna hefur verið fært úr óvissustigi yfir á hættustig en áður hafði veiran greinst á öllum hinum Norðurlöndunum. Norrænu sjúklingarnir virðast margir eiga það sameiginlegt að hafa verið á Norður-Ítalíu.
Maðurinn sem greindist í dag er á fimmtugsaldri og var í skíðaferðalagi ásamt eiginkonu sinni og dóttur í bænum Andalo á Norður-Ítalíu. Hann fór utan 15. febrúar og kom til Íslands viku síðar eða 22. febrúar. Þórólfur Guðnason sagði að maðurinn hefði veikst eftir komuna til landsins og því væri smithættan minni fyrir samferðarmenn hans en ef hann hefði orðið veikur ytra.
Nú yrðu allir sem voru á ferðalagi með manninum rannsakaðir og það yrði síðan skoðað í framhaldinu hvort þeir yrðu settir í sóttkví. Það færi eftir samneyti við manninn. Mikil vinna fari í að rekja ferðir mannsins eftir að hann kom hingað og munu heilbrigðisstarfsmenn rannsaka það ásamt lögreglumönnum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Á blaðamannafundinum kom fram að alltaf hafi verið ákveðið að fyrsti sjúklingurinn yrði alltaf í einangrun á smitsjúkdómadeildinni. Alma Möller, landlæknir, lagði á það áherslu að þótt margt væri ekki vitað um veiruna þá væri vitað að 80 prósent fengju lítil einkenni en 5 prósent veiktust alvarlega. Hún sagði Landspítalann vel í stakk búinn til að takast á við veiru, til að mynda með 26 fullkomnum öndunarvélum. Þá var tekið fram að þeir sjúklingar sem þyrftu að fara í „gáminn“ yrðu þar aðeins í 2 til 3 klukkustundir í senn.
Von er á hópi Íslendinga frá Norður-Ítalíu á morgun. Og Þórólfur sagði viðbúið að fleiri myndu smitast af þessari veiru. Það hafi alltaf verið vitað að veiran myndi fyrr en seinna berast til landsins og því væri brýnt að fólk fylgdi leiðbeiningum landlæknis, meðal annars um hreinlæti.