„Köllum ekki forseta Bandaríkjanna fasista“

01.02.2017 - 09:21
frá embættistöku Donalds Trumps, 20. janúar 2017.
 Mynd: EPA - AFP POOL
Óla Birni Kárasyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins, hugnast ekki sú stefna sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tekið í málefnum innflytjenda og flóttamanna. Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, telur rétt að alþjóðasamfélagið hætti meðvirkni og kalli hlutina réttum nöfnum - það sem Bandaríkjaforseti hafi gert fyrstu dagana í embætti sé fasískt.

Sérstök umræða var um stefnu Donalds Trumps á Alþingi í gær. Tilskipanir sem hann hefur undirritað fyrstu daga sína í embætti hafa vakið hörð viðbrögð. Mótmælt hefur verið víða um heim eftir að íbúum sjö ríkja var bannað að koma til Bandaríkjanna og hlé gert á móttöku flóttamanna.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur komið á framfæri formlegum mótmælum íslenskra stjórnvalda og þá tókst að leysa mál íslenska landsliðsmannsins Meisam Rafiei eftir að honum var meinað að koma til Bandaríkjanna þar sem hann er fæddur í Íran.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata.

Ásta Guðrún Helgadóttir, þingflokksformaður Pírata, segir það beinlínis skyldu þingmanna að vera á vaktinni þegar komi að mannréttindabrotum annars staðar heiminum. „Þetta hefur áhrif á Ísland, þetta hafði áhrif á íslenskan ríkisborgara, öryggi Íslendinga í Bandaríkjunum og viðskiptatengsl Íslands og Bandaríkjanna.“ Ásta Guðrún nefnir einnig Parísar-samkomulagið sem Bandaríkjaforseti vill strika út og að hann hafi á fyrstu dögum sínum skorið niður til alþjóðastarfs þegar komi að kvenréttindum. „Þetta er auðvitað eitthvað sem skiptir okkur máli.“

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir Donald Trump vera ólíkindatól. „Hins vegar er það þannig að tónninn var sleginn í tíð Obama þegar kemur að þessum tilskipunum. Sú braut varð greið hjá Obama og það er það sem Trump er að nýta sér núna.“ Óla Birni hugnast ekki sú stefna sem Trump hefur tekið í málefnum flóttamanna og innflytjenda - einna helst þá ákvörðun að banna íbúum sjö ríkja að koma til Bandaríkjanna. „Aftur verðum við að hafa í huga að þessi tilskipun á rætur sína til laga sem Obama setti 2015 þar sem lönd voru flokkuð og talið að fylgjast þyrfti sérstaklega með þessum sjö ríkjum.“ Þeim lögum hafi ekki verið mótmælt - hvorki hér né í Bandaríkjunum.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Hann segir að menn verði því að passa sig og vera sjálfir sér samkvæmir þótt það geti stundum verið erfitt. „Mér hugnast ekki hvernig menn töluðu á þingi í gær. Ég held að það sé ekki sæmandi þingmönnum að líkja forseta Bandaríkjanna - þótt hann geti verið okkur ógeðfelldur - við fasista. Það finnst mér of langt gengið. Við getum verið ósammála öllu því sem hann segir og öllu því sem hann gerir. En við köllum ekki þjóðhöfðingja Bandaríkjanna, lýðræðislega kjörinn forseta, fasista.“

Ásta Guðrún sagðist á Alþingi í gær hafa áhyggjur af því að Trump væri fasisti og stendur við þau orð sín. „Mér finnst bara mjög mikilvægt að við köllum hlutina réttum nöfnum. Þessi hegðun sem Bandaríkjaforseti hefur sýnt, með alræðistilburðum, með því að afneita upplýsingum og sameiginlegum gildum sem bandaríska þjóðin hefur gert með sér - þetta er fasísk tilhneiging. Ég er ekki að nota þetta í léttúðuglega. Fasismi er raunverulegt hugtak, sem á við raunverulegt pólitískt ástand sem á við raunverulegar gjörðir og það sem Donald Trump hefur verið að gera síðustu daga er fasískt.“  Stundum þurfi hreinlega að tala út - alþjóðasamfélagið þurfi að hætta sinni meðvirkni. 

Óli Björn segir að ef eigi að ræða stjórnmálaástandið í Bandaríkjunum út frá því að þar sé komin til valda fasísk öfl séu menn komnir langt út fyrir raunveruleikann. „Við munum þá aldrei ná neinum árangri í umræðum um málefnið - þá er verið að nálgast málefnið með fordómum. Því það eru fordómar að kalla lýðræðislega kjörin stjórnvöld í Bandaríkjunum fasísk.“ 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi