Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Kolefnisreiknir finnur út kolefnisspor fólks

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd
Á örfáum mínútum geta einstaklingar nú reiknað út kolefnisspor sitt miðað við séríslenskar aðstæður. Vantað hefur tól sem skýrir og veitir aðgengilegar upplýsingar um kolefnisspor þeirra sem auðveldar fólki svo að taka upplýstar ákvarðanir um neysluvenjur sínar og hagi, segir umhverfisverkfræðingur hjá Eflu sem kom að gerð reiknisins. Mikil ábyrgð hafi verið sett á herðar einstaklinga vegna loftslagsmála en ábyrgðin liggi líka hjá fyrirtækjum og stjórnvöldum.

Kolefnisreiknirinn er samstarfsverkefni OR og verkfræðistofunnar Eflu. Sigurður Loftur Thorlacius, umhverfisverkfræðingur hjá Eflu segir að verkefnið sé hluti af samfélagslegri ábyrgð fyrirtækja. Allir þurfi að leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum, þar með talið fyrirtæki. „Það er til mikils að vinna.“

Aðstæður hér á landi öðruvísi

Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri OR, segir að markmiðið hafi verið að útbúa tól sem geri einstaklingum hér á landi kleift að halda utan um sínar kolefnisvenjur og leggja til góð ráð til að draga úr kolefnisspori þeirra. Orkunotkun og kolefnisspor Íslendinga er nokkuð frábrugðið því sem gengur og gerist erlendis. Því hafi verið þörf fyrir reikni sem taki mið af séríslenskum aðstæðum.

Til að mynda er orkunotkun heimila oftast stærsti þáttur kolefnisspors fólks erlendis. Hins vegar er það afgerandi minnsti þátturinn í sporum Íslendinga, útskýrir Sigurður. Hinir þættirnir, svo sem ferðavenjur, matur og önnur neysla, skipti meira máli hér á landi. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - Samsett mynd

Tekur mið af flestum neysluvenjum 

Kolefnisreiknirinn tekur mið af matarvenjum, ferðum fólks, þar með talið ferðum í og úr vinnu, flugferðum og þess háttar, orkunotkun heimila vegna hitaveitu og rafmagns og annarri neyslu, það er, kaupum á vörum og þjónustu. Hægt er að svara með óbeinum hætti eða nota ítarlegri útreikninga.

„Þetta er það nákvæmasta sem við höfum,“ segir Sigurður, um það hversu nákvæmur reiknirinn sé. Reynt sé að ná utan um sem flesta, ef ekki alla, þætti í lífi einstaklings sem varðar kolefnissporið.

Útreikningurinn byggist á vistferilsgreiningum sem er stöðluð aðferðafræði til að meta umhverfisáhrif þjónustu og vöru yfir líftímann, „frá vöggu til grafar,“ og reikna út vistspor eða kolefnisspor, segir á vef reiknisins. 

Minnka þarf kolefnissporið um tvo þriðju

Reiknirinn veitir fólki upplýsingar um hversu mikið það hafi losað af gróðurhúsalofttegundum síðastliðna tólf mánuði og hvað hægt sé hægt að gera til að minnka það.

Minnka þyrfti neysludrifið kolefnisspor hins almenna íbúa á Íslandi um tvo þriðju ef ná á markmiðum Parísarsamkomulagsins og halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C.