Kökuform til útláns á bókasafni

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV

Kökuform til útláns á bókasafni

17.02.2020 - 11:08

Höfundar

Gestir Amtsbókasafnsins á Akureyri geta nú fengið ýmislegt fleira en bækur lánað á safninu en nýlega bættust kökuform við úrval þess sem safnið býður gestum til útláns. Amtsbókasafnið nýtur einnig þeirrar sérstöðu að útlán á DVD myndum hefur aukist til muna á síðustu árum.

„Okkur datt í hug að hefja útlán á kökuformum. Við vildum fyrst skoða hvort fólk ætti kökuform sem það notaði lítið og jafnvel kökuform sem daga uppi upp í skáp og taka pláss. Hvort það væri til í að gefa safninu formin,“ segir Berglind Mari Valdemarsdóttir, verkefnisstjóri safnsins, í Morgunútvarpinu á Rás 2. 

Berglind segir safnið helst vera að leita að formum sem myndu nýtast í kökur fyrir barnaafmæli, ekki þessi hefðbundnu kringlóttu. Alls kyns fígúrur eru sérstaklega velkomnar og nefndi Berglind til dæmis að gaman væri að fá form fyrir Batman- og Barbie-kökur.  

„Viðbrögðin hafa verið ótrúleg, svo margir búnir að skrifa athugasemdir á Facebook, senda skilaboð og deila,“ segir Berglind Mari, sem viðurkennir þó að safninu hafi ekki borist mörg kökuform að svo stöddu. „Ég treysti því bara að fólk sé að velta þessu öllu fyrir sér og fari í það að athuga hvort það eigi einhver form upp í skáp heima sem það gæti mögulega losað sig við og gefið safninu.”

Amtsbókasafnið á Akureyri býður þó ekki einungis upp á bækur og kökuform því útlán á DVD-diskum hafa einnig aukist mikið. Berglind segir safnið geta stært sig af góðu og öflugu safni en þá er einnig enginn aukakostnaður við að nálgast DVD-mynd á safninu. Þá lánar safnið hleðslusnúrur fyrir síma, lampa sem líkja eftir dagsbirtu og svo getur fólk fengið aðgang að saumavélum á safninu. Þá geta gestir einnig nýtt sér borðspil sem eru í miklu úrvali á safninu.