Kókaínneysla virðist aukast og efnið sterkara

12.09.2019 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Kókaínneysla virðist hafa aukist mjög og efnið er að verða sterkara. Þetta segir Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra Frú Ragnheiðar. Hún segir að nokkur dauðsföll á þessu ári megi rekja til kókaínneyslu. Rauði kross Íslands rekur Frú Ragnheiði en hún þjónustar vímuefnaneytendur og heimilislausa.

Aðeins þriðjungur fjár kemur frá ríkinu

Rekstur Frú Ragnheiðar kostar 32 milljónir króna á ári. Hann er þó aðallega byggður upp á sjálfboðaliðum og eru margir á biðlista um að komast að. Það á til dæmis bæði við um lækna og hjúkrunarfræðinga. Verkefnið fær sex milljónir frá ríkinu á ári og fjórar milljónir frá borginni. Hluti af starfi tveggja launaðra starfsmanna verkefnisins fer því í að leita eftir styrkjum hjá fyrirtækjum. Svala Jóhannesdóttir verkefnisstýra sagði í fréttum í gær að nágrannasveitarfélög Reykjavíkur drægu lappirnar. Þeir sem leiti til Frú Ragnheiðar eigi lögheimili alls staðar á landinu þó 90 prósent notenda eigi lögheimili í Reykjavík.

Kókaínið eykst og er orðið sterkara

Og vandi vímuefnaneytenda virðist vera að aukast: 

„Það sem er að breytast svolítið núna í neyslunni er að það er mikil svona fjölefnanotkun. Hópurinn er að nota bæði sljóvgandi lyf og örvandi lyf á sama tíma ásamt benso-lyfjum með. Við sjáum mikla aukningu í kókaínneyslu og þá er bæði fólk að sprauta kókaíni og líka að reykja kókaín. Og þetta er eitthvað, sem við á vettvangi og í málaflokknum almennt þurfum svolítið að huga að, er að kókaín á Íslandi er að aukast en efnið er líka að verða mun sterkara. Þannig að það eru nokkur tilfelli af dauðsföllum sem eru tengd við kókaínneyslu.“

Á þessu ári?

„Á þessu ári.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi