Kókaín í mörgum kimum samfélagsins

10.09.2019 - 12:19
Mynd: Barði Stefánsson / RÚV
Þriðjungi fleiri komu á bráðamóttöku Landspítalans vegna fíkniefnaneyslu síðsumars en gera í venjulegum mánuði. Yfirlæknir bráðalækninga segir aukna kókaínneyslu áberandi og hún sé ekki bundin við neinn einn þjóðfélagshóp. Afleiðingarnar geti verið hjartaáfall. Ráðgjafi á meðferðarheimilinu Hlaðgerðarkoti segir það algera undantekningu að fólk komi í meðferð vegna áfengisneyslu.

Og það er ekki skrítið að neyslan á kókaíni hafi aukist eins og fram kom í fréttum nýverið. Nærri 200 kíló af fíkniefnum hafa verið haldlögð í aðgerðum lögreglu það sem af er ári.

Karl Steinar Valsson, yfirmaður rannsóknardeildar, segir áherslubreytingar innan lögreglunnar og góða vinnu tollsins hafa sitt að segja en augljóst séu að innflutningur sé að aukast. Þá er fíkniefnaframleiðsla hér mikil. „Við erum einhvers staðar, myndi ég segja farin að nálgast 200 kg af efnum. Og það sem kannski vekur athygli líka er að blandan af efnunum er svolítið sérstök, það er miklu meira af kókaíni en hefur verið áður, ekki bara meira magnið sé meira og haldlagningarnar hver fyrir sig stærri heldur eru efnin líka sterkari,“ sagði Karl Steinar í fréttum um miðjan ágúst.

Neysla í fyrsta skipti getur verið banvæn

Og það er ekki bara lögreglan sem verður vör við að meira af kókaíni sé í umferð. Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á Landspítalanum, segir neyslumynstrið vera breytt frá því í fyrra þegar ópíóðaneysla olli miklum áhyggjum.

„Við sjáum minna af því núna en við sjáum hins meira af fólki sem er að koma inn af neyslu kókaíns einmitt. Það eru ákveðin einkenni sem eru af öllum örvandi lyfjum, bæði amfetamíni og kókaíni. Þau eru helst æsingur, hraður hjartsláttur, jafnvel mikill kvíði eða skjálfti. Fólk getur fengið krampa. En það sem er dálítið sérstakt við kókaínið er hvað það getur haft afdrifarík áhrif á hjartað og blóðþrýstinginn. Fólk er að koma inn með ákveðin hjartaeinkenni, hjartslátt, mikla brjóstverki og jafnvel hjartaáföll eftir neyslu kókaíns,“ segir Jón Magnús.

Beita þurfi annarri meðferð en venjulega þegar fólk hafi neytt kókaíns. En það geti verið vandkvæðum bundið að komast að því að fólk hafi notað efnið. Fólk á öllum aldri og úr mismunandi þjóðfélagshópum leiti á spítalann vegna kókaínneyslu. 

„Þetta er fjölbreyttur hópur. Sumir eru að prófa þetta í fyrsta sinn og líkar ekki. Er hrætt við áhrifin. Aðrir hafa notað þetta reglulega sér til skemmtunar. Og svo eru það þeir sem eru mjög langt leiddir fíkniefnaneytendur. En því miður er það þannig með þessi efni og ekki bara kókaínið, heldur mjög hver, að óhættan af neyslunni er ótrúlega mikil líka í fyrstu skiptin. Það hafa komið dauðsföll eftir það að fólk hafi neytt eiturlyfja bara í eitt skipti,“ segir Jón og bætir við að þetta get átt við um kókaínnotkun. 

Fáir fara í meðferð vegna áfengisneyslu

Og aukin kókaínneysla hefur heldur ekki farið fram hjá þeim sem fást við meðferð fyrir áfengis- og vímuefnasjúklinga. Sigurður Hólmar Karlsson er ráðgjafi á Hlaðgerðakoti.

„Við erum að fá inn bara mjög ungt fólk frá 20 og upp í kannski 35 ára. Aðalneysla þeirra er kókaín og örvandi efni. Það hefur kannski aldrei drukkið neitt eða áfengi aldrei verið vandamál,“ segir Sigurður.

Fyrir fimmtán árum hafi skjólstæðingahópurinn verið tuttugu og fimm árum eldri og oftast verið í langvarandi drykkju og lyfjamisnotkun.

„Og við breyttum meðferðinni í þriggja mánaða meðferð vegna þess að það sem við sjáum að þessi hörðu efni eins og kókaín, þau brjóta unga fólkið okkar svo hratt niður að það er í rauninni bara tíminn sem vinnur með okkur og vinnur með þeim,“ segir Sigurður.

Neyslan leiðir fólk í ólöglegt athæfi

Kókaínneyslan er dýr og þess vegna leiðist margir út í lögbrot eins og innbrot, sölu og innflutning fíkniefna og vændi. Þá steli margir frá þeim sem þeim þyki vænst um. Nokkurra milljóna króna fíkniefnaskuldir séu ekki óalgengar og yfirþyrmandi fyrir þann sem er í meðferð og hefur enga atvinnu. 

„Sá sem er í mikilli kókaínneyslu hann er ekki lengi að taka íbúðaverð í nefið,“ segir Sigurður.

Algengt er líka að reykja efnið. Sigurður segir þeir sem ánetjist fíkniefnum séu yngri nú en fyrir nokkrum árum. Algengt sé að krakkar byrji að reykja gras í síðasta bekk í grunnskóla og leiðist síðan út í sterkari efni. 
Og neyslan sviptir unga fíkla flestu því sem getur talist heilbrigt og venjulegt líf. Fólk verður niðurbrotið og missir alla trú á eigin getu til að snúa frá neyslunni, segir Sigurður. Margir þurfi á sálfræðiaðstoð að halda og glími við afleiðingar ofbeldis og kynferðisofbeldis. Sigurður segir að margt af því unga fólki sem komi í meðferð á Hlaðgerðarkoti hafi fengið ýmsar greiningar eins og ADHD og geðsjúkdóma. En eftir nokkurra mánaða edrúmennsku sé eins og greiningarnar eigi ekki lengur við.  

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi